Sjóðir á vegum bandaríska eignarstýringarfyrirtækisins Eaton Vance Management seldu í gær tæplega 2,5 milljónir hluta í Högum. Miðað við núverandi gengi bréfanna nam salan 103 milljónum króna.

Eignarhlutur Eaton Vance í smásölufyrirtækinu er nú kominn niður í 4,94 prósent en þetta kemur fram í tilkynningu sem skylt er að senda þegar eignarhlutur í skráðu félagi fer niður fyrir eða upp fyrir fimm prósent.

Sjá einnig: Eaton Vance dregur saman seglin á Íslandi

Í ýtarlegri umfjöllun Markaðarins frá því í janúar kom fram að sjóðir á vegum Eaton Vance, sem hófu fyrst að kaupa í íslenskum hlutabréfum síðla árs 2015, hefðu á síðustu mánuðum minnkað markvisst við sig í skráðum félögum í Kauphöll Íslands.