Samkvæmt opinberum tölum frá stjórnvöldum í Katar er heildarkostnaður við heimsmeistaramótið í knattspyrnu 200 milljarðar Bandaríkjadala. Erfitt hefur reynst að staðfesta upphæðina sökum misvísandi yfirlýsinga um innviðakostnað í tengslum við mótið seinustu tólf árin.

Hinn raunverulegi heildarkostnaður er talinn vera í kringum 220 milljarða Bandaríkjadala, en sú upphæð er 60 sinnum hærri en það sem Suður-Afríka eyddi í sitt mót árið 2010. Innifalið í þeirri tölu eru byggingarframkvæmdir á nýjum hótelum, flugvöllum og leikvöngum.

Ein ástæða fyrir þessari háu upphæð er meðal annars talin vera kælikerfin sem eru innbyggð í flestalla leikvangana til að halda leikmönnum og stuðningsmönnum við þægilegt hitastig.

Grasið á völlunum kemur einnig af innfluttum grasfræjum og var ræktað í sérstökum gróðrarstöðvum. Þegar það vex þarf svo stöðugt að vökva það í kaldtempruðu loftslagi til að það lifi af í þurru katörsku eyðimörkinni.

Gífurlegum fjárhæðum hefur einnig verið varið í gistingu, þar á meðal einbýlishús, íbúðir, hótel og einkaeyjur.

Í höfuðborginni Doha var 15 milljörðum dala eytt í gistiaðstöðu sem nefnist Perlan og 36 milljörðum var varið í neðanjarðarlestarkerfi borgarinnar. Heil ný borg var einnig byggð í kringum Lusail-leikvöllinn sem hýsir 22 hótel og húsnæði fyrir 200.000 íbúa. Þar má líka finna skemmtigarð, tvær smábátahafnir og tvo golfvelli.

Kostnaðurinn við mótið í ár vekur ýmsar spurningar í ljósi umræðunnar um farandverkafólkið sem byggði leikvangana. Stór hluti þess kom frá Afríku og Suður-Asíu og þurftu margir að greiða hátt ráðningargjald fyrir það eitt að fá að vinna. Mörgum var lofað háum launum og góðum vinnuaðstæðum en enduðu í skuldum og nútíma þrælahaldi.

Einn þriðji af tveimur milljónum farandverkamanna í Katar eru frá Bangladess og Nepal og gat meðalkostnaður fyrir vinnuleyfi verið í kringum 3-4.000 Bandaríkjadali. Það tæki þar með meðal verkamann sem þénar 275 dali á mánuði rúmlega heilt ár að greiða upp ráðningargjald sitt. Til samanburðar þénar meðal Katarbúi um 4.500 dali á mánuði og er Katar með hæstu þjóðarframleiðslu miðað við höfðatölu í heiminum.

Í kjölfar mikils þrýstings frá alþjóðasamfélaginu lofuðu stjórnvöld í Katar að bæta laun og vinnuaðstæður fyrir farandverkamenn. Margir hafa vissulega tekið þessum umbótum fagnandi en það verður líklegast ekki fyrr en eftir að mótinu lýkur að hægt verður að greina hver raunverulegi heildarkostnaðurinn við HM í Katar var.