Ný borg trónir nú á toppi lista bresku rann­sóknar­stofunnar Economist Intelli­gence Unit (EIU) yfir dýrustu borgir heims. París var á toppnum í fyrra en að þessu sinni er það ísraelska borgin Tel Aviv sem stekkur úr fimmta sætinu í það fyrsta á listanum.

París deilir nú 2.- 3. sætinu með Singa­púr og þar á eftir koma Zurich í Sviss og Hong Kong.

Í nýrri skýrslu EIU, sem CNN fjallar um, er bent á að heims­byggðin hafi glímt við ýmsar á­skoranir síðast­liðið ár vegna kórónu­veirufar­aldursins. Skortur hefur verið á ýmsum vörum og þá hafa vöru­flutningar víða gengið hægt. Þetta hefur gert það að verkum að verð­lag hefur víða þokast upp á við en þó mis­jafn­lega mikið á milli borga og landa.

Í skýrslunni er bent á að hár flutnings­kostnaður, hækkandi vöru­verð og sterkt gengi ísraelska sjekelsins gagn­vart Banda­ríkja­dollar skýri stökk Tel Aviv í fyrsta sætið.

Ýmis at­riði eru lögð til grund­vallar út­reikningum EIU en að þessu sinni var verð­lag á um 200 vörum og þjónustu­liðum skoðað í 173 borgum um allan heim.

Dýrustu borgirnar:

Tel Aviv
París
Singapúr
Zurich
Hong Kong
New York
Genf
Kaupmannahöfn
Los Angeles
Osaka
Osló
Seúl
Tókýó
Vín
Sydney
Melbourne
Helsinki
London
Dublin
Frankfurt
Shanghai