Bretland er nú að ganga í gegnum dýpstu efnahagslægð frá upphafi mælinga en samkvæmt bresku hagstofunni varð 20,4 prósent samdráttur á breska efnahagskerfinu á öðrum ársfjórðungi.

Um er að ræða dýpstu lægð sem mælst hefur í nokkru hagkerfi á heimsvísu að sögn fréttastofu CNN en þetta er í fyrsta sinn í ellefu ár sem efnahagsleg lægð mælist í Bretlandi.  Í efna­hags­kreppunni árið 2008 fór sam­drátturinn aldrei yfir eitt prósent á mánuði.

Tvöfalt verra en í Bandaríkjunum

Landsframleiðsla hnignaði samtals um 22,1 á árinu þar sem mikill samdráttur mældist á fyrstu tveimur ársfjórðungum. Samdrátturinn mælist mun hærri en í nágrannalöndunum og til samanburðar mældist metlægð í Bandaríkjunum 10,6 prósent fyrir sama tímabil.

Framleiðsla hefur þó aukist í lítillega í landinu síðan stjórnvöld afléttu hömlum síðastliðinn júní.

Hart í ári

„Tölur dagsins staðfesta að nú sé hart í ári,“ sagði fjármálaráðherra Bretlands, Rishi Sunak, í yfirlýsingu. „Hundruð þúsund manns hafa þegar misst vinnuna og því miður munu fleiri bætast í hóp þeirra á næstu mánuðum.“

Um það bil 9,6 milljónir starfs­manna í Bret­landi hafa fengið hluta launa sína greidd af stjórn­völdum og hefur verk­efnið kostað ríkis­stjórnina nætti 35 milljarða punda. Þá hafa einnig 2,7 milljón manns sótt um at­vinnu­leysis­bætur. Talið er að ef ekki væri fyrir að­gerðir stjórn­valda hefði sam­dráttur í hag­kerfinu orðið enn meiri.

Boris John­son, for­sætis­ráð­herra Bret­lands varaði nýlega við því að erfiðir mánuðir væru fram undan en sagðist full­viss um að Bretar kæmust í gegnum þá. „Við efuðumst aldrei að þetta yrði mjög al­var­leg ógn í heil­brigðis­málum en þetta hefur einnig mjög stórar hliðar­verkanir á efna­hags­lífið.“