Rúmlega 90 prósent forsvarsmanna fyrirtækja telja að tekjur muni minnka milli annars ársfjórðungs í fyrra og sama fjórðungs í ár vegna COVID-19 faraldursins. Þetta kemur fram í könnun sem Maskína gerði fyrir Samtök atvinnulífsins.

Þá telja 80 prósent að tekjurnar hafi verið lægri í mars síðastliðnum en í marsmánuði í fyrra. Telja þeir að tekjurnar muni minnka um helming að meðaltali. Tæplega sex þúsund manns verið sagt upp störfum, langstærstur hluti í ferðaþjónustu og flutningum.

„Þetta er í takt við það sem við höfum óttast. Þrátt fyrir að faraldurinn hafi mest áhrif á ferðaþjónustu og tengdar greinar þá benda þessar niðurstöður til þess að áhrifin séu víðtækari og nái til nánast allra atvinnugreina. Það er sláandi að sjá að forsvarsmenn 90 prósent fyrirtækja telja að tekjurnar muni minnka en kemur að sama skapi ekki mikið á óvart,“ segir Ásdís Kristjánsdóttir, forstöðumaður efnahagssviðs SA. „Það blasir við að efnahagslegur kostnaður vegna COVID-19 verður gríðarlega mikill. Enn ríkir mikil óvissa, eins konar snögghemlun atvinnulífsins lýsir best stöðunni, og botninn er ekki í sjónmáli.“

Almenn ánægja mælist með aðgerðir stjórnvalda. „Þegar fyrsti aðgerðapakki stjórnvalda var kynntur fyrir rúmlega tveimur vikum var vitað að þörf yrði á enn meiri aðgerðum. Við vonumst til að sjá frekari aðgerðir kynntar á næstunni og mikilvægt að stjórnvöld gangi ákveðin til verks líkt og við erum að sjá til dæmis flest Evrópuríkin gera. Fyrirtæki sem sjá fram á verulegan tekjusamdrátt áfram verða að vita hvaða úrræði eru í boði til að gera frekari ráðstafanir.“

Ásdís segir að næsti aðgerðapakki verði að taka mið af því að áhrif faraldursins muni vara jafn lengi eða lengur en svörtustu spár hafa hingað til gert ráð fyrir. Erlendir skammtímahagvísar benda til þess að þessi niðursveifla verði ein sú dýpsta sem mælst hefur frá seinna stríði.

„Mikilvægt er að horfa til þess sem önnur ríki eru að gera, erlendis hafa stjórnvöld veitt fyrirtækjum sem lenda í verulegum tekjusamdrætti beina ríkisstyrki upp í sinn fasta kostnað, eða lána til fyrirtækja á engum vöxtum svo dæmi séu tekin. Frekari frestun opinberra gjalda getur ekki verið hluti af lausn á vanda fyrirtækja, heldur jafnvel búið til stærra vandamál seinna sem fyrirtæki ráða ekki við. Forsenda þess að við getum séð hagvöxt á ný og fjölgað störfum á ný er að hér séu fyrirtæki ekki of skuldsett þegar fer að birta til á ný.“

Miðað við erlendar greiningar sem nú birtast er útlit fyrir að niðursveiflan verði mun dýpri og alvarlegri en í fyrstu var gert ráð fyrir. „Í byrjun mars voru flestir greiningaraðilar á því að áhrifin yrðu eins konar V-laga á heimshagvöxtinn.Skörp dýfa á meðan faraldurinn gengur yfir en viðsnúningurinn yrði þeim mun sterkari. Nú eru hins vegar greiningar að gera ráð fyrir U-laga áhrifum, eða jafnvel „Nike-laga“, og að það muni taka lengri tíma að vinna upp framleiðslutapið,“ segir Ásdís.

„Við verðum að búa okkur undir að hér á landi verði niðursveiflan líklega dýpri en við sáum fyrir rúmlega tíu árum síðan. Aftur á móti eru allar forsendur til að ætla að efnahagsbatinn gangi hraðar fyrir sig og skiptir höfuðmáli að hið opinbera, Seðlabankinn og bankakerfið hafi getu og svigrúm til að mæta því áfalli sem nú gengur yfir. Við erum því sem betur fer ekki að sjá jafnmikið gengisfall og verðbólguskot líkt og síðast, þegar við þurftum að leita til annarra þjóða og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um lánafyrirgreiðslu.“

Gústaf Steingrímsson, hagfræðingur hjá Landsbankanum, segir stöðuna í ferðaþjónustunni mjög erfiða. „Það má segja að búið sé að kippa rekstrargrundvellinum undan hótelum sem og öðrum ferðaþjónustufyrirtækjum á meðan ferðatakmarkanir verða í gildi,“ segir Gústaf. „Það er mikil óvissa og enginn veit neitt.“

Vonir eru bundnar við að aðgerðir stjórnvalda til að hvetja landsmenn til að ferðast innanlands í sumar muni milda áhrifin. „Íslendingar voru um tíu prósent allra sem gistu á hótelum í fyrra, ef þeir taka við sér mun það milda höggið eitthvað en samdrátturinn verður alltaf mikill.“

Fjöldi erlendra ferðamanna hér á landi hefur margfaldast síðasta áratuginn. Gústaf segir ekkert sérstakt því til fyrirstöðu að ná þeim fjölda aftur en það gæti tekið tíma.

„Þjónustustigið í ferðaþjónustunni gæti minnkað við það tímabundið. Það mun síðan leiða til þess að það mun taka nokkurn tíma fyrir okkur að ná aftur þeim tekjum sem við höfðum af erlendum ferðamönnum fyrir áfallið að öðru óbreyttu.“

Gústaf Steingrímsson, hagfræðingur í Landsbankanum