Fjárfestar sem leitast eftir betri ávöxtun en hlutabréfamarkaðurinn almennt verða að vera reiðbúnir til að þola lengri tímabil af lækkunum. Yfir 80 prósent af sjóðum í virkri stýringu í Bandaríkjunum sem státa af betri árangri en markaðurinn hafa að minnsta kosti verið í fimm ár á meðal þeirra sjóða sem stóðu sig hvað verst.

„Á tíu ára tímabili má búast við því að sjóðstjóri skili lakari árangri á þremur eða fleiri árum,“ segir Christopher Tidmore, meðhöfundur nýrrar greiningar frá Vanguard, í frétt Financial Times. „Sveiflurnar eru meiri en þú hefðir haldið.“

Fjárfestar hafa takmarkað úthald fyrir sjóðum sem vegnar verr en markaðurinn. „Það er mikið rætt um að það þurfi mikla þolinmæði til að fjárfesta á hlutabréfamarkaði, en þeir sem fjárfesta í sjóðum í virki stýringu þurfa að sýna þolinmæði, ekki bara gagnvart stefnunni heldur einnig gagnvart sjóðstjóranum,“ segir Tidmore.

Um 50-60 prósent sjóða í virkri stýringu sýndu fram á meira en 20 prósent verri árangur en markaðurinn áður en þeim tókst að ná betri árangri en viðmiðið til lengri tíma.

Samkvæmt rannsókn Vanguard státuðu sjóðir í virkri stýringu af eitt prósent betri árangri en markaðurinn á ári.

„90 prósent stofnanafjárfesta vilja skipta um sjóðstjóra þegar hann hefur skilað verri árangri en markaðurinn tvö ár í röð,“ segir Tidmore.