Birgir Örn Birgisson, fráfarandi framkvæmdastjóri Domino’s á Ísland og einn af forvígismönnum Samtak fyrirtækja á veitingamarkaði, segir að hann og aðrir kollegar hafi gert tilraunir til að setjast niður með forsvarsmönnum stéttarfélaga til að útskýra stöðu kjarasamninga og áskoranir geirans. Þetta kemur fram í miðopnuviðtali í Markaðnum.

„Við báðum um þrjá fundi, með Sólveigu Önnu hjá Eflingu, Drífu Snædal frá ASÍ og Ragnari hjá VR. Veitingageirinn er með mest af sínu fólki í Eflingu og því þótti okkur eðlilegt að setjast niður með þeim, skiptast á upplýsingum, reyna að skilja hverju þau eru að leitast eftir og útskýra svo okkar hlið á málum. Okkar fyrirætlun var að búa til aukinn og gagnkvæman skilning milli fyrirtækja í veitingarekstri og verkalýðsforystunnar og reyna að búa til einhvers konar samstarfsflöt.

En Sólveig hefur hingað til hafnað að hitta okkur, hún vill að hin óstofnuðu samtök taki opinberlega undir gagnrýni þeirra á launaþjófnað sem er á skjön við til dæmis skoðun Samtaka atvinnulífsins. Það er að okkar mati ekki samasemmerki milli þess að geta ekki borgað laun og launaþjófnaðar. En þetta er hennar krafa og forsendur fyrir samtali, við vorum ekki tilbúin að hefja samtal á þessum nótum. Auðvitað erum við á móti kennitölu­flakki, það liggur í augum uppi og við höfum sagt það. Svo er það auðvitað þannig að í sumum tilfellum fara fyrirtæki raunverulega í gjaldþrot og ekki er hægt að gera upp allar launakröfur. Það er ekki rétt að kalla það launaþjófnað,“ segir hann.

Birgir segir samtalið við Drífu ekki hafa verið nægjanlega uppbyggilegt. „Við sendum á hana áðurnefnda skýrslu KPMG um rekstrarumhverfi veitingageirans á Íslandi samanborið við hin Norðurlöndin. Skýrar og sláandi niðurstöður en Drífa byrjar fundinn á að segja að þessi gögn hafi enga vigt í hennar huga.

Mér þótti það merkilegt upplegg. Það er raunverulegur vandi í greininni sem hefur valdið því að þúsundir starfsmanna hafa misst vinnuna, þeirra félagsmenn, en það virtist enginn vilji til þess að greina vandann.

Ragnar hjá VR sýndi okkar sjónarmiðum hins vegar skilning og þar kvað við allt annan tón. Þar fundum við fyrir raunverulegum vilja til að tala við okkur. En þar er ekki okkar starfsfólk og því kannski minna upp úr því samtali að hafa fyrir veitingamenn.

Okkur finnst almennt samskipti milli aðila hafa harðnað um of og okkur virðist lítill vilji til samvinnu og samtals,“ segir Birgir Örn og nefnir dæmi um mann í veitingarekstri sem neyddist til þess, í samskiptum sínum við Eflingu, að tilkynna þeim að hann væri að taka upp samtalið. „Það var eina leiðin til að eiga eðlileg samskipti við þau um málefni sem varða þeirra skjólstæðinga. Áður en hann fór að taka upp samtölin mætti honum ekkert nema óbilgirni í öllum samskiptum.

Hér þarf nýja nálgun. Veitingageirinn var með 12 þúsund starfsmenn fyrir faraldurinn og langstærstur hluti þeirra í Eflingu. Forystan í Eflingu neitar svo að setjast niður með okkur nema alfarið á hennar forsendum,“ segir hann.