Drífa Snædal, forseti Alþýðusambands Íslands, segir flugfélagið Play vera stórhættulegt íslensku launafólki, í kjölfar flutnings hluta starfsemi fyrirtækisins til Litáen ítrekar hún hvatningu á sniðgöngu flugfélagsins.

Hugsunin að halda niðri kostnaði

Fram kemur í tilkynningu frá flugfélaginu verður opnað nýtt útibú í Vilníus í Litháen í desember. Höfuðstöðvar PLAY verða áfram á Íslandi, auk allra áhafna og flugreksturs. Reiknað er með að fimmtán til tuttugu manns muni starfa á skrifstofu PLAY í Vilníus innan fárra mánaða.

„PLAY etur kappi við flugfélög sem hafa lágan kostnaðargrundvöll og aðgengi að sérþekkingu á alþjóðlegum markaði. Það er því nauðsynlegt fyrir PLAY að geta mætt þeim sem jafningjum. Hugsunin er sú að halda niðri kostnaði og lágmarka yfirbyggingu svo hægt sé að bjóða lág fargjöld í hörðu samkeppnisumhverfi,“ segir í tilkynningunni.

„Opnun skrifstofunnar í Vilníus er mikilvægt skref í þá átt að tryggja lágan kostnaðargrundvöll PLAY á sama tíma og félagið hefur starfsemi beggja vegna Atlantshafsins og undirbýr framtíðarvöxt.“

Hafi brotið allar reglur

Drífa segir í færslu á Facebook að þetta sé rökrétt framvinda að Play leiti lægri launa utan landsteinanna. „Viðskiptamódelið gengur út á lækkun launakostnaðar og til þess hefur félagið lagt til hliðar samskipti á vinnumarkaði og brotið allar reglur, þ.m.t. að sölsa undir sig heilt stéttarfélag,“ segir hún.

Drífa sparar ekki stóru orðin. „Play er stórhættulegt íslensku launafólki, ekki bara flugfreyjum og -þjónum heldur öllum. Það er engin tilviljun að miðstjórn ASÍ og formannafundur hefur hvatt til sniðgöngu á félaginu, það er ekki yfirlýsing sem gefin er á hverjum degi. Ég ítreka hvatningu til launafólks og fjárfesta að styðja ekki þetta flugfélag, það stríðir gegn hagsmunum íslensks launafólks.“