Tólf mánaða verðbólga mældist 10,5 prósent í desember, samkvæmt bresku hagstofunni, lækkaði úr 10,7 prósentum í nóvember, en í október var verðbólgan 11,1 prósent og hafði ekki verið meiri frá árinu 1981.

Kjarnaverðbólgan, þegar verð á matvælum, eldsneyti, áfengi og tóbaki er undanskilið, var óbreytt í 6,3 prósentum. Þetta er eilítið meira en spár hagfræðinga gerðu ráð fyrir, en búist var við lækkun í 6,2 prósent.

Financial Times greindi frá því að þrátt fyrir lækkunina sé bresk verðbólga meiri en víða annars staðar, meðal annars vegna mikils þrýstings vegna eldsneytisverðs.

Matvælaverðbólga mælist hins vegar 16,9 prósent, sem er það mesta síðan sérstakar mælingar hófust árið 1977.

Frá því í nóvember 2021 hefur Englandsbanki hækkað stýrivexti sína úr 0,1 prósenti í 3,5 prósent og búist er við að þeir hækki enn um 0,5 prósent í byrjun febrúar