Tap Motormax, sem er í eigu sömu hluthafa og Toyota á Íslandi, dróst saman úr 227 milljónum króna árið 2019 í 72 milljónir árið 2020.

Tekjurnar jukust úr 904 milljónum króna í 1,3 milljarða eða um 46 prósent.

Fram kom í fréttum í ársbyrjun 2019 að Motormax hafi keypt þrotabú Bílanausts.

Eigið fé Motormax var 45 milljónir króna við árslok 2020 og eiginfjárhlutfallið sjö prósent.

Motormax er innflutnings- og söluaðili fyrir kerrur, dráttarbeisli og varahluti. Fyrirtækið rekur einnig smurstöð. „Aðaláherslan hjá okkur er á að selja varahluti,“ sagði Ingi Þór Harðarson, framkvæmdastjóri Motormax við Fréttablaðið haustið 2018.

Motormax er í eigu Úlfars Steindórssonar, forstjóra Toyota á Íslandi, og Kristjáns Þorbergssonar, fjármálastjóra Toyota.