Í Hagsjá Landsbankans um fasteignamarkaðinn, sem birt var í morgun, kemur fram að leiguverð heldur áfram að þróast með rólegasta móti og hefur nánast staðið í stað frá því að veirufaraldurinn hófst, eða aðeins hækkað um 1,9 prósent síðan í janúar 2020. Faraldurinn hefur haft talsverð áhrif á eftirspurn eftir húsnæði til kaupa. Vextir á íbúðalánum lækkuðu í kjölfar stýrivaxtalækkana Seðlabankans og þar með kaupgeta margra. Hlutfall fyrstu kaupenda jókst og hefur aldrei mælst hærra. Við slíkar aðstæður dregst eftirspurn eftir leiguhúsnæði saman. Önnur ástæða fyrir minnkandi spennu á leigumarkaði er fækkun ferðamanna.

Hófstilltur leigumarkaður

Nýjustu gögn Þjóðskrár um leiguverð eiga við þinglýsta samninga á höfuðborgarsvæðinu í nóvember þar sem leiguverð hækkaði um 1,2 prósent milli mánaða. Þetta er talsvert meiri hækkun en á síðustu mánuðum, í október stóð verðið í stað og í september lækkaði það örlítið. 12 mánaða hækkun leiguverðs mælist afar hófleg, eða einungis 3,4 prósent á sama tíma og kaupverð íbúða í fjölbýli hækkaði um 16 prósent. Til samanburðar hækkaði vísitala neysluverðs án húsnæðis um 3,0 prósent. Raunhækkun leigu, það er hækkun á leigu umfram annað verðlag, mælist því innan við hálft prósentustig, sem hefur einkennt stöðuna núna fjóra mánuði í röð.

Húsnæðisverð hefur hækkað langt umfram leigu síðustu mánuði.

Því má segja að stöðugleiki ríki á leigumarkaði þar sem leiga þróist í takt við annað verðlag, ólíkt því sem hefur sést á íbúðamarkaði undanfarið. Munurinn á þróun leigu- og kaupverðs hefur aldrei mælst jafn mikill og nú og bendir til þess að hækkanir íbúðaverðs séu komnar fram úr því sem æskilegt getur talist, að mati hagfræðinga Landsbankans.

Mjög hefur dregið úr spennu á leigumarkaði á meðan kaupverð þrýstist upp.

Misdýr leiga eftir svæðum

Munur er á leiguverði milli svæða á höfuðborgarsvæðinu.

Samanburður á fermetraverði samkvæmt nýjum samningum í nóvember gefur til kynna að fermetraverð tveggja herbergja íbúða sé hæst í vesturhluta Reykjavíkur. Þar leigist slík íbúð að meðaltali á 3.441 kr./fm. og hækkar um 4 prósent frá því í nóvember 2020. Lægsta fermetraverð tveggja herbergja íbúða á höfuðborgarsvæðinu er að finna í Garðabæ og Hafnafirði (2.679 kr./fm. að meðaltali) og lækkar um 9 prósent milli ára samkvæmt þeim samningum sem þinglýst var í nóvember. Mest hækkaði leiga tveggja herbergja íbúðar austan Elliðaáa í Reykjavík, alls um 15 prósent milli ára miðað við þá samninga sem þinglýst var í nóvember á höfuðborgarsvæðinu.

Íbúðir dýrastar í vesturhluta Reykjavíkur

Vesturbærinn er dýrastur.

Líkt og í tilfelli tveggja herbergja íbúða mælist fermetraverð þriggja herbergja íbúða hæst í vesturhluta Reykjavíkur, að meðaltali 2.886 kr./fm. en lækkar örlítið frá því í nóvember 2020. Lægsta fermetraverð þriggja herbergja íbúðar á höfuðborgarsvæðinu er að finna í Kópavogi þar sem íbúð leigist að jafnaði á 2.436 kr. á hvern fermetra samkvæmt ný-þinglýstum samningum. Þar hækkar verðið þó um 9 prósent milli ára, sem er mesta hækkun sem sást á verði þriggja herbergja íbúðar milli ára í nóvember. Hafa ber í huga að hér er litið til meðalverðs á hvern fermetra óháð stærð íbúða, en fermetraverð er jafnan hærra eftir því sem íbúðir eru minni að öðru óbreyttu.

Leigusamningum fækkar milli ára

Út nóvember hafði að jafnaði 547 leigusamningum verið þinglýst í hverjum mánuði sem er heldur færra en árið 2020 þegar að jafnaði 590 samningum var þinglýst, en þá hafði fjöldinn aukist talsvert frá fyrra ári. Aukning sást í nýjum samningum þegar faraldurinn brast á sem er til marks um aukinn hreyfanleika leigjenda á markaðnum. Vera má að skyndileg aukning í framboði leiguhúsnæðis vegna fækkunar ferðamanna hafi orðið til þess að margir nýttu tækifærið og skiptu um húsnæði. Nýleg könnun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar á meðal leigjenda bendir til þess að húsnæðisöryggi þeirra sé að aukast og hagfræðingar Landsbankans telja aukinn verðstöðugleika síðustu mánuði, líkt og hér hefur verið rakið, hafa haft þar áhrif.