Mun meiri hömlur eru á beinni erlendri fjárfestingu á Íslandi en í flestum öðrum ríkjum OECD. Innflæði beinnar erlendrar fjárfestingar á Íslandi hefur verið neikvætt allt frá árinu 2016. Útlit er fyrir að svo hafi einnig verið árið 2020. Skref í því að auka áhuga erlendra fjárfesta er að draga úr hömlunum.

Þetta segir Anna Hrefna Ingimundardóttir, forstöðumaður efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins, í samtali við Markaðinn. Hún hélt erindi á Skattadegi SA, Deloitte og Viðskiptaráðs.

„Rétt eins og á Íslandi tíðkast erlendis að hömlur séu til staðar á erlendri fjárfestingu í nýtingu á náttúruauðlindum, eignarhaldi á innviðum og samgöngumannvirkjum,“ segir Anna Hrefna og nefnir að hömlur séu á erlendri fjárfestingu í öllum atvinnugreinum hér á landi. „Það gæti skýrst að hluta til af tilkynningarskyldu nýfjárfestingar.“

Anna Hrefna Ingimundardóttir, forstöðumaður efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins.

Hún bendir á að OECD hafi greint samkeppnishæfni íslensks regluverks í ferðaþjónustu og byggingariðnaði að beiðni Þórdísar Kolbrúnar Gylfadóttur, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra. Þar hafi komið í ljós 676 mögulegar samkeppnishindranir í lögum og reglugerðum. „Ljóst er að ráðast þarf í gagngera endurskoðun á hömlum þvert á atvinnugreinar og því væri æskilegt að fara í sambærilega vinnu í fleiri atvinnugreinum,“ segir Anna Hrefna.

Ekki eru horfur á mikilli atvinnuvegafjárfestingu í nálægri framtíð. Hún hefur dregist saman frá árinu 2018, eða áður en COVID-19 heimsfaraldurinn kom til sögunnar, að sögn Önnu Hrefnu. „Óháð þeim efnahagsvanda sem fylgir COVID-19 ættum við að leita leiða til að auka erlenda fjárfestingu hér á landi. Kostir þess eru margvíslegir. Með auknu fjármagni fjölgar til dæmis möguleikum til innlendrar fjárfestingar, innlendur mannauður eflist með samstarfi við erlenda sérfræðinga og áhættu er dreift á fleiri hendur,“ segir hún.