Domino‘s sér fram á að ráða allt að 80 nýja starfsmenn á næstu vikum vegna mikilla anna og aukningar í sölu síðustu misser. Ekki er um að ræða þörf vegna nýrra verslana heldur vegna aukinnar sölu í núverandi verslunum. Þetta kemur fram í tilkynningu.

Fyrst og fremst er um að ræða hlutastörf og er vinnutíminn einna helst um kvöld og helgar. Um er að ræða fjölbreytt störf, jafnt við afgreiðslu og framleiðslu en einnig útkeyrslu.

Domino‘s rekur 23 verslanir og því ættu flestir að geta fundið svæði sem þeim hentar að starfa á út frá búsetu en hjá félaginu starfa ríflega 600 einstaklingar, segir í tilkynningunni.

„Við hvetjum þá einstaklinga sem eru tilbúnir að vinna í hröðu og lifandi umhverfi til þess að sækja um. Það er oft hasar hjá okkur yfir annatíma og er um að ræða hörku vinnu sem oft fylgir talsvert álag. Við bjóðum lifandi umhverfi, samkeppnishæf laun, öflugt fræðslustarf, mikil tækifæri til þess að vaxa í starfi og gott félagslíf. Ekki skemmir svo fyrir að fá starfsmannaafslátt af pizzum,“ segir Magnús Hafliðason, forstjóri Domino‘s á Íslandi.

Magnús Hafliðason, forstjóri Domino‘s á Íslandi.