„Þau áhrif sem þetta mun hafa fyrir pólska innflytjendur og íslensk fyrirtæki sem vinna með Pólverjum eru margþætt. Það er mikilvægt að sýna þessum stóra hópi betri stuðning og greiða aðgengi þeirra að ýmiss konar þjónustu sem þau þurfa að sækja á Íslandi. Umfram pólsk rafræn skilríki styður Dokobit skilríki frá öllum Norðurlöndunum, Litháen og fleiri löndum, sem þýðir að fyrirtæki og stofnanir geta gert rafrænu ferlin sín aðgengileg mun fleirum en þeim sem hafa rafræn skilríki frá Auðkenni. Þannig geta þau til að mynda skrifað undir ráðningasamninga rafrænt, áður en þeir flytja til landsins,“ segir Ólafur Páll Einarsson, framkvæmdastjóri Dokobit á Íslandi.

Ólafur segir lífgæði mikil á Íslandi og því komi ekki á óvart að stór hópur leiti til landsins vegna atvinnu eða fjölskyldutengsla. „Það er okkar ábyrgð að styðja sem best við þennan hóp og mikilvægt að gleyma þeim ekki við hönnun rafrænna ferla,“ segir hann.

Ólafur segir að sömuleiðis sé hægt að safna löglegum undirskriftum og skrifa undir samninga við fólk eftir að það flytur aftur til Póllands. Undirskriftirnar frá Póllandi eru fullgildar rafrænar undirskriftir sem hafa sömu réttaráhrif og þær íslensku skv. lögum nr. 55/2019.

„Stéttarfélög hafa spurt talsvert um þetta því það er algengt að þau þurfi að fylgja eftir málum fyrir félagsmenn sem eru í sumum tilfellum fluttir til baka frá Íslandi og ekki lengur með rafræn skilríki frá Auðkenni. Í því tilfelli geta þeir ekki auðveldlega auðkennt sig til að fylgjast með stöðu sinna mála, sent fylgigögn á öruggan hátt eða undirritað skjöl, t.d. til að veita umboð til gagnaöflunar,“ segir Ólafur.

Bera sömu réttarfarslegu áhrif og handskrifaðar undirskriftir

Dokobit er eina fyrirtækið á Íslandi sem býður upp á fullgildar rafrænar undirskriftir þvert á landamæri en þessar undirskriftir hafa sömu réttarfarslegu áhrif og handskrifaðar undirskriftir. Fram að þessu hefur Dokobit stutt rafræn skilríki frá Íslandi, Danmörku, Noregi, Svíþjóð, Eistlandi, Lettlandi, Litháen, Finnlandi, Belgíu og núna Póllandi. Utan þessara landa er einnig möguleiki að verða sér út um fullgild rafræn skilríki í gegnum lausnir Dokobit með því að framvísa vegabréfi yfir vefmyndavél.

„Við finnum fyrir ákveðinni ábyrgð þar sem við erum eina fyrirtækið á Íslandi sem getur boðið upp á fullgildar rafrænar undirskriftir á milli landa. Þess vegna finnst okkur mikilvægt og gott að geta núna sinnt stærsta hóp innflytjenda á Íslandi með þessari mikilvægu þjónustu. Við styðjum þegar rafræn skilríki frá flestum löndum sem eru hér með sterka viðveru – Danmörk, Litháen, Lettland, Noregur og Finnland sem dæmi. Þetta mun gera þeim auðveldara að aðlagast samfélaginu okkar og hjálpa fyrirtækjum og stofnunum hérlendis að starfa með erlendu vinnuafli," segir Ólafur enn fremur.