Nýverið gengu þrír nýir forritarar til liðs við Dohop á Íslandi, til að anna aukinni eftirspurn eftir hugbúnaðarþróun fyrir erlend flugfélög.

Í kjölfar fjármögnunar frá breska fjárfestingasjóðnum Scottish Equity Partners (SEP) hefur Dohop vaxið töluvert síðustu mánuði, en þetta kemur fram í tilkynningu frá Dohop.

Elísabet Rós Valsdóttir hefur verið ráðin sem forritari í hugbúnaðarþróun og mun meðal annars þjónusta Air France, Transavia og Vueling. Elísabet er útskrifuð með B.Sc. í vefforritun frá KEA í Danmörku.

Melkorka Mjöll Jóhönnudóttir hefur verið ráðin sem bakendaforritari og mun þjónusta flugfélögin Easy Jet og Eurowings. Melkorka er með B.Sc. gráðu í tölvunar- og rafmagnsverkfræði frá HÍ.

Sæunn Sif Heiðarsdóttir kemur til Dohop frá Advania þar sem hún hefur verið hugbúnaðarsérfræðingur undanfarin fjögur ár. Sæunn mun koma til með að þróa lausnir fyrir viðskiptavini Dohop í Asíu. Sæunn er með B.Sc. gráðu í tölvunar- og iðnaðarverkfræði frá HÍ.

„Við höfum fundið fyrir góðum meðbyr þrátt fyrir COVID-19 og því er mjög ánægjulegt að ráða þrjár öflugar konur inn í hugbúnaðarteymið okkar. Hópurinn á svo eftir að stækka enn frekar á árinu þar sem mörg spennandi verkefni eru í farvatninu. Okkar viðskiptavinir og flugiðnaðurinn sem heild sjá fram á bjarta tíma þegar ferðalögin byrja aftur af fullum þunga á næstu mánuðum og misserum,“ sagði Davíð Gunnarsson, framkvæmdastjóri Dohop.

Dohop er tæknifyrirtæki stofnað á Íslandi árið 2004. Hjá Dohop starfa nú um 70 manns í tíu löndum, en kjarnastarfsemi félagsins fer fram á Íslandi.