Dögg Pálsdóttir lögmaður og sonur hennar, Páll Ágúst Ólafsson, lögmaður Michele Ballarin, eru meirihlutaeigendur í félagi sem sótt hefur um flugrekstrarleyfi fyrir WOW air. Þetta má lesa úr gögnum frá Fyrirtækjaskrá.

Fram kom í Fréttablaðinu í morgun að skráð nafn félagsins væri Háutindar. Ballarin eigi 49 prósenta hlut í fyrirtækinu en Málsefni 33 prósenta hlut og Tangar 19 prósenta hlut. Samkvæmt ársreikningum á Dögg Málsefni að fullu og Páll Ágúst Tanga að fullu.

Samkvæmt reglugerð Evrópusambandsins sem hefur verið innleidd hér á landi þurfa ríkisborgarar aðildarríkja EES-svæðisins að eiga meira en helming í fyrirtæki sem hefur flugrekstrarleyfi. Þar sem Ballarin er bandarísk getur hún ekki átt meirihluta í félaginu ef það er með íslenskt flugrekstrarleyfi.

Framferði Ballarin hér á landi er athyglisvert. Hún laug til að mynda um að hún ætti 30 milljóna Bandaríkjadala herrasetur í Virginíu í Bandaríkjunum í viðtali við Kveik sem sýnt var í febrúar, að því er fram kom nýverið í frétt Washington Posts.

Að sama skapi hefur kom fram í fréttum að félag Ballarin, sem festi kaup á ýmsum eignum úr þrotabúi WOW air, hyggist ekki greiða Sturlu Þorvaldssyni og Róberti Leifssyni, eigendum Maverick, 40 milljónir í vangoldin laun þrátt fyrir dóm Héraðsdóms Reykjavíkur þar að lútandi.

Lögmaður Ballarin hér á landi, Páll Ágúst, segir í tölvupósti til lögmanns Maverick að Bandaríkin séu ekki aðili að Lúganósamningnum og þar af leiðandi þurfi að höfða mál í Bandaríkjunum til staðfestingar á dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í því fylki sem USAeropspace Associates LLC, félag Ballarin, hafi lögheimili.