Stjórn Walt Disney ákvað á sunnudaginn að reka forstjórann Bob Chapek og ráða í hans stað fyrrverandi forstjórann Bob Iger til starfa að nýju. Chapek hafði tekið við af Iger árið 2020 eftir að sá síðarnefndi hafði stýrt fyrirtækinu í fimmtán ár.

Skemmtigarðurinn sem tilheyrir fyrirtækinu hefur fengið á sig mikla gagnrýni síðastliðin ár og virðist sem svo að reiði viðskiptavina hafi skilað sér til æðstu stjórnenda fyrirtækisins.

Verðhækkanir, þjónustuskerðing og lengri biðtími hafa einkennt skemmtigarðinn sem hefur makað krókinn síðan hann var opnaður á ný eftir heimsfaraldurinn.

Disney er meðal annars hætt að bjóða upp á hraðmiða fyrir raðir og ókeypis rútuþjónustu fyrir hótelviðskiptavini sína frá Orlando-alþjóðaflugvellinum. Þess í stað þurfa viðskiptavinir að greiða aukalega fyrir slíka þjónustu.

Það var einnig tilkynnt í síðustu viku að skemmtigarðurinn myndi hækka miðaverð sín í annað skipti á þessu ári.

Þeir fastagestir sem hugðust heimsækja garðinn oft á ári þurftu meðal annars að bíta í það súra epli að fyrirtækið hætti að selja árskort og takmarkaði einnig aðgang þeirra sem eru þegar árskortsmeðlimir. Hugmyndin var að setja þá gesti sem sækja garðinn sjaldnar en eyða meiri peningum í senn í forgang.

Ákvörðunin um að endurráða Bob Iger kom mjög á óvart þar sem Iger hafði yfirgefið fyrirtækið fyrir fullt og allt árið 2021.

Stjórn Disney hafði einnig framlengt ráðningarsamning við Bob Chapek um þrjú ár, en þegar ljóst var að stærsta fyrirtæki Hollywood hafði skilað „hámarkstapi“ á þriðja ársfjórðungi 2022 var ákveðið að breyta um stefnu.