Unnið er að því að opna veitingastaðinn Dill, sem er sá eini á Íslandi sem skartað hefur Michelin-stjörnu, á annarri hæð í Kjörgarði á Laugavegi 59. Veitingastaðurinn Nostra var þar áður til húsa en honum var lokað í maí. Á meðal hluthafa er Gunnar Karl Gíslason kokkur sem opnaði Dill árið 2009, samkvæmt heimildum Markaðarins.
Veitingahúsinu var lokað tímabundið í ágúst. Á sama tíma var tveimur stöðum, sem reknir voru í sama húsi við Hverfisgötu 12 og lutu sama eignarhaldi, lokað fyrir fullt og allt.
Gunnar Karl sagði við fjölmiðla við það tilefni að þungur rekstur Mikkeller & Friends og Systur hefði sligað Dill. Staðirnir hefðu allir verið reknir á sömu kennitölu og á sama veitingaleyfi. Gatnaframkvæmdir á Hverfisgötu hefðu ekki bætt stöðuna.
Hann sagði að Dill hefði ekki farið í þrot, reksturinn hefði gengið mjög vel og aðsókn verið mikil frá upphafi.
Ekki náðist í Gunnar Karl við vinnslu fréttarinnar.