Starfsemi stórbankans Deutsche Bank í Bandaríkjunum stóðst ekki álagspróf Seðlabanka Bandaríkjanna sem er ætlað að meta hvort bankageirinn geti þolað aðra fjármálakreppu.

Samkvæmt niðurstöðu álagsprófsins, sem birt var í gærkvöldi, eru „víðtækir og þýðingarmiklir annmarkar“ á hluta af starfsemi bankans vestanhafs.

31 af 35 bönkum sem gengust undir álagsprófið stóðst það, að sögn breska ríkisútvarpsins.

Álagspróf Seðlabanka Bandaríkjanna var fyrst kynnt til sögunnar í kjölfar fjármálakreppunnar sem reið yfir heimsbyggðina á árunum 2007 og 2008. Seðlabankinn leggur nú árlega mat á stöðu bandarískra banka sem og alþjóðlegra banka sem starfa í landinu. Metur seðlabankinn meðal annars hvort eiginfjárstaða bankanna sé nógu sterk til þess að bankarnir geti þolað umtalsverð áföll.

Seðlabankinn lagði í gær jafnframt blessun sína yfir arðgreiðsluáform 22 stærstu banka Bandaríkjanna, en þeir hyggjast greiða alls út um 168 milljarða dala í arð á næstu mánuðum, að því er segir í frétt Financial Times.

Seðlabankinn lagðist hins vegar gegn áformum Deutsche Bank um að flytja fjármuni frá starfsstöð bankans í Bandaríkjunum til höfuðstöðvanna í Frankfurt í Þýskalandi.

Niðurstöður álagsprófsins eru enn eitt áfallið fyrir Deutsche Bank en í síðasta mánuði settu bandarísk stjórnvöld bankann á athugunarlista yfir „vandræðabanka“. Hlutabréf í bankanum hafa hríðfallið um 46 prósent í verði það sem af er ári.