Félagið BVS, sem er í meirihlutaeigu Íslandsbanka og heldur utan um forgangshlutabréf fyrri eigenda Borgunar í Visa Inc., er að ganga frá sölu á bréfunum í bandaríska korta­risanum fyrir um 9,44 milljónir Bandaríkjadala, jafnvirði um 1.200 milljóna íslenskra króna. Nokkrir af minni hluthöfum BVS, meðal annars Haukur Oddsson fyrrverandi forstjóri Borgunar, hafa sett sig upp á móti sölunni, sem þeir telja að sé á verulegu undirverði, og gagnrýna að hluthafar fái ekki val um að halda á bréfunum áfram.

Á hluthafafundi BVS síðastliðinn föstudag óskaði stjórn félagsins eftir heimild hluthafa til að ljúka sölu á VISA forgangshlutabréfunum, sem voru aðskilin frá Borgun þegar kortafyrirtækið var selt til Salt Pay fyrir jafnvirði um 4 milljarða króna í fyrra, eftir að tilboð hafði borist í þau frá ónafngreindum aðila. Í bréfi sem var sent til hluthafa fyrir fundinn, sem Markaðurinn hefur undir höndum, kemur fram að stjórnin sé bundin trúnaði um nafn kaupandans en hins vegar liggi fyrir staðfesting á að hann tengist engum hluthafa BVS með neinum hætti. Samkvæmt heimildum Markaðarins er um að ræða bandarískan fjárfestingarsjóð.

Hluthafar sem ráða yfir 89 prósenta hlut í félaginu greiddu atkvæði með sölunni, þar á meðal Íslandsbanki sem fer með 64,4 prósenta eignarhlut, en einnig fjárfestingafélögin Stálskip og Pei, sem er í eigu Einars Sveinssonar fjárfestis. Þeir sem eru andvígir sölunni, og eiga samtals um 7,5 prósenta hlut í BVS, eru meðal annars félög í eigu Margrétar Gunnarsdóttur, eiginkonu Hauks Oddssonar, Franz Jezorski, fyrrverandi eigandi bílaumboðsins Heklu, og Óskar Veturliði Sigurðsson, sem sat í stjórn Borgunar á árunum 2015 til 2020. Hluthafar BVS eru í dag 59 talsins.

„Ég skil ekki af hverju Íslandsbanki, sem er í eigu almennings, ætlar að gefa huldumanni um eins milljarðs króna afslátt af mjög góðri eign,“ útskýrir Óskar Veturliði í samtali við Markaðinn, „og ætli auk þess að þvinga alla aðra hluthafa til að selja á sama gengi. Það eru engin rök fyrir því að leyfa ekki þeim hluthöfum sem vilja ekki selja að halda á þessum bréfum.“

Þar vísar Óskar Veturliði til þess að Visa forgangsbréfin í eigu BVS, sem Borgun eignaðist upphaflega þegar Visa Inc. keypti Visa Europe árið 2016, séu metin á um 2,4 milljarða króna ef litið er til núverandi hlutabréfaverðs kortafyrirtækisins á markaði í Bandaríkjunum.

Forgangsbréfin í Visa Inc., sem eru í svokölluðum C-flokki, voru gefin út í þeim tilgangi að verja félagið fyrir mögulegri skaðabótaskyldu vegna meintrar ólögmætrar háttsemi Visa Europe gagnvart markaðsaðilum í Evrópu. Á tilteknum tímapunktum fram til ársins 2028 mun Visa Inc. meta hvert mögulegt tjón vegna slíkra málsókna geti verið og um leið meta hugsanlegt skiptigengi bréfanna í C-flokki yfir í almenn hlutabréf. Fyrsta slík breyting forgangsbréfanna var í lok júní í fyrra, þegar helmingi Visa bréfa BVS var breytt í A-flokk og seld í kjölfarið á 18,6 milljónir dala, en næsta breyting verður hins vegar ekki fyrr en sumarið 2022.

Það eru engin rök fyrir því að leyfa ekki þeim hluthöfum sem vilja ekki selja að halda á þessum bréfum.

Nokkur óvissa er því um raunverulegt markaðsvirði bréfanna í dag. Þeir hluthafar sem hafa andmælt sölunni hafa hins vegar bent á að samkvæmt greinendum séu hlutabréf í Visa Inc. talin umtalsvert undirverðlögð um þessar mundir og þá hafi helstu fjármálastofnanir í Evrópu, sem eignuðust sömuleiðis slík bréf við söluna á Visa Europe, ekki séð ástæðu til að selja frá sér forgangshlutabréfin.

Í svari Íslandsbanka við fyrirspurn Markaðarins vegna þeirra athugasemda sem minnihluti hluthafa hefur gert við söluna kemur fram að tilgangur BVS einskorðist við eignarhald og sölu á Visa bréfunum og að sérstaka heimild þurfi til að eiga slík bréf.

„Virði Visa C-bréfanna byggir á mati á niðurstöðu dómsmála sem væntanleg er á næstu 5-7 árum. Á nýlegum hluthafafundi BVS kom fram að BVS hefði fengið tilboð í bréfin, ívið hærra en mat á þessum eignum um síðustu áramót. Voru sjónarmið um sölu ítarlega rædd á fundinum og komu meðal annars fram sjónarmið þeirra sem telja að ekki sé rétt að selja bréfin á þessu stigi. Niðurstaða kosninga var að 89% hluthafa voru hlynnt sölunni en 7,45% voru henni andvíg. Að gefnu tilefni hefur verið ákveðið að boða til nýs hluthafafundar hjá BVS til að fjalla um málið að nýju og er sá fundur ráðgerður eftir páska,“ segir í svari bankans.