Davíð Helgason, einn af stofnendum hugbúnaðarfyrirtækisins Unity Technolog­ies, hefur keypt eitt verðmætasta íbúðarhús landsins að Hrólfsskálavör 2 á Seltjarnarnesi, sem var áður í eigu Skúla Mogensen, af Arion banka. Samkvæmt heimildum Markaðarins nemur kaupverðið á sjötta hundrað milljónum króna.

Húsið er rúmlega 600 fermetrar að stærð og er fasteignamat þess um 221 milljón króna. Arion banki leysti húsið til sín í byrjun septembermánaðar en Skúli, fyrrverandi forstjóri og eigandi WOW air, hafði veðsett húsið fyrir um 360 milljónir þegar flugfélagið réri lífróður haustið 2018. Í kjölfar gjaldþrots WOW air í fyrra setti Skúli húsið á sölu, þar sem einkum var horft til fjársterkra erlendra einstaklinga, og var ásett verð í kringum 700 milljónir. Þær tilraunir báru ekki árangur.

Davíð er á meðal ríkustu núlifandi Íslendinga eftir að Unity var skráð í kauphöll New York um miðjan september en markaðsvirði félagsins, sem hefur hækkað um 200 prósent frá skráningu, er nú um 41,7 milljarðar Bandaríkjadala, jafnvirði 5.500 milljarða íslenskra króna. Eignarhlutur Davíðs í Unity, sem er um fjögur prósent, er því metinn á rúmlega 200 milljarða króna í dag.

Davíð Helgason á um fjögurra prósenta hlut í Unity sem er metinn á um 200 milljarða króna í dag.

Tekjur Unity á þriðja ársfjórðungi námu um 200 milljónum dala en fyrirtækið býr til hugbúnað sem mikill fjöldi tölvuleikja byggir á, einkum fyrir snjallsíma. Davíð, sem stofnaði fyrirtækið ásamt tveimur öðrum árið 2004, hefur búið vestanhafs um langt skeið en hyggst nú flytja til Íslands. Hann hefur í viðtölum sagst fjárfesta nær eingöngu í nýsköpunar- og sprotafyrirtækjum en Davíð var á meðal þeirra fyrstu sem fjárfestu í Plain Vanilla og sat um tíma í stjórn félagsins.