Davíð Helgason, meðstofnandi Unity, hefur selt hlutabréf í hugbúnaðarfyrirtækinu fyrir samtals 104,2 milljónir Bandaríkjadala, jafnvirði 13,4 milljarða króna frá maí til loka nóvember. Þetta kemur fram í frétt Viðskiptablaðsins.

Hann á enn um 3,3 prósenta hlut í Unity sem metinn er á um 207 milljarða króna.

Davíð seldi hlutabréf í hugbúnaðarfyrirtækinu fyrir 55,8 milljónir dala, eða sem nemur 7,2 milljörðum króna, í lok nóvember. Það er stærsta sala Davíð í Unity frá því að félagið fór á markað í september 2020 en samtals hafði hann selt bréf í fyrirtækinu fyrir tæplega 6,2 milljarða króna í nokkrum lotum frá maí til september, segir í fréttinni.

Gengi Unity hefur hækkað nokkuð að undanförnu og var söluverð Davíðs í viðskiptunum í nóvember um 34 prósentum hærra en þegar Davíð seldi bréf í september.