Davíð Helgason, einn af stofnendum hugbúnaðarfyrirtækisins Unity Software, ratar á lista bandaríska tímaritsins Forbes yfir milljarðamæringa heims.

Davíð er í sæti 2.674 á lista Forbes sem metur auðæfi hans á milljarð Bandaríkjadala.

Ævintýraleg velgengni Davíðs vakti mikla athygli á seinni hluta síðasta árs. Davíð kom að stofnun Unity árið 2004 og var forstjóri til ársins 2014. Unity var skráð á markað um miðjan september í fyrra og er gengi bréfanna í dag um tvöfalt hærra en útboðsgengið.

Björgólfur Thor Björgólfsson er í sæti 1.444 en á listanum sem Forbes birti í fyrra var hann í sæti 1.063. Þannig féll Björgólfur Thor niður listann þrátt fyrir að auðæfi hans hefðu aukist úr 2 milljörðum dala upp í 2,2 milljarða samkvæmt mati bandaríska tímaritsins.