Vilborg Helga Harðardóttir var ráðin forstjóri upplýsingafyrirtækisins Já hf. í byrjun árs en hún hefur meira en þrettán ára reynslu af störfum fyrir félög innan samstæðunnar. Vilborg Helga segir að síðustu mánuðir í nýju hlutverki hafi einkennst af margvíslegum áskorunum og að fram undan séu spennandi tímar.

Hver eru þín helstu áhugamál?

Síðustu ár hefur vinna og nánasta fjölskylda átt stærstan hluta tíma míns. Mínar uppáhaldsstundir eru samtöl við fólkið í kringum mig um líf þess og það sem á því brennur og mér finnst fátt meira gefandi en að vera treyst fyrir því. Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á fólki, reynslu þess og hugarheimi og leiddi það mig upphaflega í sálfræðinámið. Ég hlusta mikið á tónlist og sæki í hana þá orku sem ég þarfnast hverju sinni, hvort sem það er ró, kraftur eða fjör. Góðir tónleikar eru toppurinn, sér í lagi ef tónlistarfólkið segir frá sjálfu sér og sögunni á bak við lögin.

Hvernig er morgunrútínan þín?

Yfirleitt er ég á síðustu stundu út úr húsi á morgnana. Tvö snús og vaninn að skoða tölvupóst og taka rúnt á helstu samfélags- og fréttamiðlum áður en ég fer á fætur á líklega stóran þátt í því. Við hjónin tryggjum í sameiningu að allir fái hafragraut og komist á sína staði á réttum tíma – í sannleika sagt samt meira hann en ég þótt ég leggi mitt af mörkum. Dagurinn verður svo alltaf betri þegar ég næ stuttri hugleiðslu áður en ég held af stað út í daginn.

Hvaða bók hefur haft mest áhrif á þig?

Tvær eftirminnilegustu bækur sem ég hef lesið eru Karítas án titils eftir Kristínu Marju Baldursdóttur og Sagan af Ástu eftir Jón Kalman Stefánsson. Þær hreyfðu báðar mikið við mér og þá síðari langaði mig að byrja að lesa strax aftur um leið og síðustu blaðsíðu lauk. Nú rúmu ári síðar kemur hún enn oft upp í huga mér. Annars hef ég undanfarið verið með þrjár bækur á víxl í eyrunum sem allar geyma einhverja gullmola. Þetta eru Dare to lead eftir Brené Brown, The subtle art of not giving a f*ck eftir Mark Manson og Why we sleep eftir Matthew Walker. Ég verð reyndar svo hrædd í hvert sinn sem ég hlusta á Why we sleep að ég er ekki viss um að ég klári hana, en mun gera mitt besta hér eftir til að fá nægan svefn.

Hver hafa verið mest krefjandi verkefnin hjá þér á síðustu mánuðum?

Það er í grunninn krefjandi að takast á við nýtt starf og aukna ábyrgð. Síðustu mánuðir í nýju hlutverki hafa einkennst af margvíslegum áskorunum og á tíðum mjög erfiðum ákvörðunum. Fyrst og fremst hefur þetta þó verið afar lærdómsríkur tími með einstöku samstarfsfólki.

Hvernig hefur rekstrarumhverfi Já breyst og hvernig hefur fyrirtækið tekist á við breytingarnar?

Breytingar í tækni, notendahegðun og samkeppnisumhverfinu hafa gjörbreytt rekstrarumhverfi félagsins. Stafræn umbreyting hófst strax við stofnun árið 2005 og kemur í dag langstærstur hluti tekna frá vörum og þjónustu sem voru ekki hluti af vöruframboðinu við stofnun. Hjá fyrirtækinu hefur alltaf verið hugrekki til að takast á við breytingar og er lögð rík áhersla á nýsköpun, virka þátttöku starfsfólks í þróunarverkefnum og nýtingu nýjustu tækni. Með stefnuna okkar að leiðarljósi, að auðvelda notendum viðskipti, samskipti og ákvarðanatöku, þróum við allar okkar vörur og þjónustu.

Hvaða tækifæri sérðu fram undan hjá Já?

Já hf. á og rekur fjögur vörumerki; Já, Gallup, Leggja og Markaðsgreiningu. Það eru skemmtilegir tímar fram undan og unnið að spennandi tækifærum fyrir þau öll. Svo dæmi sé tekið eru mikil tækifæri í nýju Já appi sem verið var að gefa út. Það felur í sér frábæra nýjung, svokallaða Vöruleit. Til viðbótar við fyrri þjónustu Já.is býðst notendum nú að leita að vörum frá öllum íslenskum vefverslunum á einum stað. Þar er að finna tæplega 600.000 vörur frá um 500 vefverslunum og fæst þægilegt yfirlit yfir hvar vara fæst og hvar er besta verðið. Með auðveldum hætti má einnig ganga frá kaupum og setja vörur á óskalista til finna þær fljótt síðar eða deila með vinum og vandamönnum.

Hvar sérðu þig eftir 10 ár?

Reynslunni ríkari að sinna verkefnum sem ég hef gaman af með góðu og hæfileikaríku fólki, og að nýta hvert tækifæri til góðrar samveru með fjölskyldu og vinum.