Dagný Hrönn Pétursdóttir verður framkvæmdastjóri fyrirtækisins Geothermal Lagoon samkvæmt heimildum Markaðarins en fyrirtækið hyggst byggja baðlón á Kársnesinu með útsýni út á Faxaflóa. Dagný starfaði um árabil sem framkvæmdastjóri Bláa lónsins en hún lét af störfum haustið 2017. Á síðasta ári tók hún við starfi stjórnarformanns í Íslenskum fjárfestum.

Unnið er að hönnun baðlónsins og gera áætlanir ráð fyrir að það rísi í Kársnesi árið 2021. Þá var greint frá því að kanadíska fyrirtækið VIAD hefði fjárfest fyrir 14 milljónir kanadískra dala, eða um 1,3 milljarða króna, og fengið 51 prósents hlut í rekstrarfélagi lónsins. VIAD, sem er skráð í kauphöllinni í New York, starfar í Bandaríkjunum, Kanada, Sameinuðu arabísku furstadæmunum og Mið-Evrópu.