Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna segir að mikill fjöldi kvartana hafi borist samtökunum síðastliðna viku í kringum tilboðsvörur fyrirtækja á „Black Friday" sem var á föstudaginn síðastliðinn og vegna „Cyber Monday" sem er í dag.

„Okkur hafa borist ábendingar að vöruverð hafi verið hækkað fyrir fram bara til að lækka það á þessum dögum. Í einstaka tilvikum hefur verðið jafnvel verið hærra á tilboðsdögunum en það var áður. Við hjá Neytendasamtökunum bendum fólki á að senda inn kvörtun eða ábendingu til Neytendastofu sem hefur eftirlit með þessum atriðum. Þetta er auðvitað kolólöglegt," segir Breki í samtali við Fréttablaðið.

Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna,

Neytendastofa hefur eftirlit með viðskiptaháttum fyrirtækja og ákvarðar hversu alvarlegar ábendingar neytenda eru og getur lagt sektir á þau fyrirtæki sem stunda slíka ólöglega starfsemi.

„Því miður þá fáum við alltaf tilkynningar um að vöruverð sé hækkað í kringum þessa daga. Við höfum verið að hvetja fólk undanfarið til að taka myndir eða skjáskot af vöruverði á þeim vörum sem það er að velta fyrir sér að kaupa og svo aftur þegar að tilboðsdagarnir standa yfir," segir Breki.

Hann segir jafnframt að samtökin hafi verið að benda fólki á að það eru ekki alltaf stórkostleg tilboð í gangi. „Fimm til tíu prósent afsláttur er ekki endilega eitthvað sem fólk á að hlaupa eftir. Þessir dagar eru trommaðir upp af kaupmönnum til að fá okkur neytendur til að versla meira í aðdraganda jólanna. Við þurfum að vera meðvituð um að það er ástæða fyrir þessum kaupgleðileik, að auka veltuna og flýta fyrir jólaversluninni".

Mörg fyrirtæki sektuð fyrir slík brot

Þórunn Anna Árnadóttir, sitjandi forstjóri Neytendastofu segir að einhverjar ábendingar hafi borist.

„Sumar ábendingarnar hafa verið mjög góðar með fullnægjandi gögnum og annað þess háttar. Við munum taka einhver mál til meðferðar hjá okkur."

Hún segir jafnframt að ekki sé borðleggjandi hvort einhver fyrirtæki verði sektuð. „Fyrst þurfum við að gefa fyrirtækjunum kost á að tjá sig, við erum að vinna í þessum málum núna. Síðan verður tekin formleg ákvörðun um hvort einhver fyrirtæki verði sektuð," segir Þórdís.

Neytendastofa sektar í flestum tilfellum ekki fyrir fyrsta brot en ef fyrirtæki hafi áður haft þessa háttsemi eru þau sektuð.

„Við erum alltaf að fá ábendingar þegar það eru svona sérstakir tilboðsdagar í gangi og einnig þegar það eru almennar útsölur. Því miður þá tökum við margar ákvarðanir að um brot sé að ræða og að vara hafi ekki verið seld á fyrra verði. Á móti kemur að í mörgum tilfellum ná fyrirtæki að sanna að varan hafi verið seld á fyrra verði, þess vegna gefum við fyrirtækjunum kost á að tjá sig um málið áður en þau eru sektuð."

Fjöldi fólks lagði leið sína í Kringluna á föstudaginn til að gera góð kaup.