Samkeppniseftirlitið hefur heimilað kaup heildsölurisans 1912 ehf. á hluta í ísgerðinni Emmessís ehf. Eftirlitið segir markaðinn mjög samþjappaðan en innkoma á markaðinn sé hins vegar möguleg.

1912, móðurfélag heildsölunnar Nathan & Olsen og Ekrunnar, keypti 56 prósent hlut í Emmessís. Ísgarðar, félag í eigu Pálma Jónssonar, framkvæmdastjóra ísgerðarinnar, seldi hlutinn en hann heldur eftir 35 prósenta hlut. 1912 er í eigu Kristínar Fenger Vermundsdóttur og barna hennar, Ara Fenger forstjóra og Bjargar Fenger.­ Árið 2017 velti samstæðan sjö milljörðum króna og hagnaðist um 217 milljónir króna.

Í samrunatilkynningunni kom fram að takmarkaðar aðgangshindranir væru að markaðinum. Þannig væri í raun auðvelt fyrir hvern sem er að tryggja sér dreifingarsamning um tiltekið vörumerki og gera samninga við þriðja aðila um innflutning, dreifingu og geymslu. Engin leyfi þyrfti til slíkrar starfsemi og aðgangshindranir væru því litlar sem engar. Markaðshlutdeild Core ehf. á ísmarkaði styddi þessa kenningu, en fyrirtækið hóf innflutning og sölu á ís árið 2018.

Samkeppniseftirlitið nefnir í ákvörðun sinni að Core sé nýtt fyrirtæki á ísmarkaðnum, með nokkuð meiri hlutdeild en aðrar, rótgrónari heildsölur, þ.á m. 1912, sem gefi til kynna að innkoma á markaðinn sé möguleg. Það ásamt möguleika á eigin innflutningi smásöluverslana veiti starfandi aðilum á markaði nokkuð samkeppnislegt aðhald. Eftir sem áður sé markaðurinn mjög samþjappaður. Emmessís og Kjörís hafi sterka stöðu á markaðnum og hafi viðhaldið henni um lengri tíma.

Í samrunaskrá byggja samrunaaðilar mat sitt á markaðshlutdeild á tölum frá AC Nielsen. Þar áætla þeir að á markaði fyrir innflutning, framleiðslu og heildsöludreifingu á ís til dagvöruverslana sé Emmessís með 31,9 prósenta markaðshlutdeild og Häagen-Dazs sem 1912 flytur inn með 3,3 prósent. Áætluð markaðshlutdeild keppinauta, byggð á sömu tölum, sé 43,1 prósent hlutdeild hjá Kjörís, 3,3 prósenta hlutdeild hjá Core/Barbells og 1,5 prósenta hlutdeild hjá ÍSAM. Aðrir séu með 16,9 prósent.