Dælan ehf. braut lög um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu með auglýsingum sínum um að bensínstöðvar þeirra bjóði upp á lægsta verð á höfuðborgarsvæðinu.

Neytendastofa rannsakaði eftirfarandi fullyrðingar úr markaðsherferð Dælunnar og gerði athugasemd við framsetningu á verðtöflu á vefsíðu Dælunnar þar sem misræmi var á milli töflunnar og skýringartexta.

  • „Lægsta verðið í Kópavogi á Dælunni“
  • „Við höfum sama lága verðið á öllum stöðvum Dælunnar sem er lægsta meðalverðið hjá íslensku olíufélögunum samkvæmt bensinverd.is“
  • „Dælan býður lægsta meðalverðið á eldsneyti meðal allra íslensku olíufélaganna, á 5 stöðum á höfuðborgarsvæðinu“
  • „Dælan býður viðskiptavinum sínum upp á besta mögulega eldsneytisverð hverju sinni“

Ekki skýrt að Costco væri undanskilið

„Þá telur stofnunin fullyrðingu Dælunnar um besta mögulega eldsneytisverð hverju sinni mjög afdráttarlausa fullyrðingu sem sé villandi þar sem hvergi er að finna skýringu á því að átt sé við besta verðið sem Dælan getur boðið hverju sinni.“

Dælan svaraði stofnuninni um að misræmi fullyrðingar um lægsta verð í Kópavogi hafi orðið vegna ítrekaðra og hraðra verðbreytinga keppinauta. Á einhverjum tímapunkti hafi ekki verið búið að sækja nýjustu gögn eða Dælan ekki búin að lækka verð sitt til móts við verð keppinauta.

Varðandi fullyrðingu um lægsta meðalverð íslensku olíufélaganna þá sé meðalverð þeirra tekið og borið saman við meðalverð Dælunnar að undanskildu Costco, enda sé Costco hvorki íslenskt né olíufélag og birti ekki verð sitt á bensinverd.is.

Þá sé miðað við meðalverð á höfuðborgarsvæðinu en ekki á landsbyggðinni þar sem Dælan sé aðeins á höfuðborgarsvæðinu. Þá tiltók Dælan að þegar félagið segist bjóða besta mögulega eldsneytisverð hverju sinni þá sé vísað til almennra rekstrar- og markaðsaðstæðna, innkaupsverðs, útsöluverðs samkeppnisaðila, skatta, gjalda og fleira.

Varðandi athugasemd Neytendastofu um misræmi í texta og verðtöflu á vefsíðu Dælunnar þá hefur komið fram í skýringum félagsins að misræmið mætti rekja til mistaka við uppfærslu en birtist aðeins þegar vafraglugginn hafi verið skalaður niður en ekki þegar hann hafi verið í fullri stærð. Þetta hafi verið leiðrétt um leið og Dælunni urðu mistökin ljós.

Langar biðraðir myndast daglega fyrir utan bensínstöð Costco.
Fréttablaðið/Ernir Eyjólfsson

Neytendastofa segir að í markaðssetningunni Dælunnar var ekki að finna skýringar á því hvað fælist í meðalverðinu eða hvernig það væri reiknað út á milli stöðva þannig að hinn almenni neytandi gæti tekið upplýsta ákvörðun. Þá er orðalag fullyrðingarinnar að um lægsta meðalverð sé að ræða meðal íslensku olíufélaganna mjög almennt og hvergi gerð nánari grein fyrir því að í því felist að Costco sé undanskilið samanburðinum.

„Telja má því líklegt að hinn almenni neytandi myndi ætla að Costco væri með í umræddum samanburði þar sem félögin eru keppinautar við sölu eldsneytis. Þá telur stofnunin fullyrðingu Dælunnar um besta mögulega eldsneytisverð hverju sinni mjög afdráttarlausa fullyrðingu sem sé villandi þar sem hvergi er að finna skýringu á því að átt sé við besta verðið sem Dælan getur boðið hverju sinni. Því sé auðvelt að túlka fullyrðinguna á þann hátt að Dælan sé ávallt með besta mögulega eldsneytisverðið á markaði. Er það mat Neytendastofu að hinn almenni neytandi leggi þann skilning í fullyrðingarnar að Dælan bjóði ódýrara eldsneyti en allir keppinautar á markaði,“ segir í úrskurði Neytendastofu.