Fulltrúi fjárfestingafélagsins CVC í stjórn Alvogen Lux, móðurfélagi lyfjafyrirtækisins, hafnar því að félagið sé nú að vinna að því að selja allan hlut sinn í fyrirtækinu.

Tomas Ekman, meðeigandi hjá CVC, segir í orðsendingu til Markaðarins, vegna fréttar blaðsins um að CVC skoði nú sölu í Alvogen, að félagið standi „heilshugar að baki fjárfestingu sinni í Alvogen og systurfyrirtæki þess Alcotech.“

Ritstjórn Markaðarins stendur við frétt sína og hefur áreiðanlegar heimildir fyrir því að CVC hafi að undanförnu kannað sölu á hlut sínum í Alvogen og að þær viðræður hafi verið langt komnar.

CVC kom fyrst inn í hluthafahóp Alvogen árið 2015, þegar sjóðurinn, ásamt Temasek, leiddi hóp fjárfesta sem keypti samanlagt um 69 prósenta hlut í fyrirtækinu. Í þeim viðskiptum var heildarvirði Alvogen metið á um tvo milljarða Bandaríkjadala, jafnvirði 250 milljarða króna á núverandi gengi, og hlutaféð á 1,1 milljarð dala.

Í síðustu viku breytti lánshæfismatsfyrirtækið Moody’s horfum Alvogen í Bandaríkjunum úr stöðugum í neikvæðar og vísaði til þess að endurfjármögnunaráhætta félagsins hefði aukist og því væri ólíklegt að markmið þess um að ná skuldum undir fimmfaldri EBITDA á þessu ári muni nást.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem CVC freistar þess að selja hlut sinn í Alvogen. Árið 2017 greindi Bloomberg frá því að CVC væri að kanna sölu á starfsemi Alvogen í Bandaríkjunum til kínverska lyfjafyrirtækisins Shanghai Pharma. Voru þær söluviðræður, sem gerðu ráð fyrir að heildarvirði Alvogen yrði metið á um 4 milljarða dala, langt á veg komnar um tíma.

CVC hafnaði hins vegar frétt Bloomberg um að félagið stefndi að sölu á hlut sínum í Alvogen.