Kaupverð bandaríska framtakssjóðsins Levine Leichtman Capital Partners (LLCP) á meirihluta hlutafjár Creditinfo Group, móðurfélags Creditinfo á Íslandi, samsvarar því að íslenska félagið sé verðmetið á allt að 30 milljarða króna, samkvæmt heimildum Markaðarins. Stærsti hluthafi sjóðsins samanstendur af afkomendum stofnanda IKEA-keðjunnar.

„Ég var í ökumannssætinu, færði mig yfir í farþegasætið og er núna kominn aftur í,“ segir Reynir Grétarsson, stofnandi Creditinfo, um aðkomu sína að félaginu eftir söluna. Eins og fram kom í tilkynningunni um kaupin í gær heldur Reynir sæti í stjórn og er jafnframt annar stærsti hluthafi félagsins eftir söluna. Reynir, sem átti fyrir 70 prósenta hlut, heldur eftir 35 prósenta hlut.

Kaupverðið er trúnaðarmál en samkvæmt heimildum Markaðarins miðast það við að fyrirtækið sé í heild sinni metið á 20-30 milljarða króna – endanleg fjárhæð veltur á ákveðnum fjárhagslegum markmiðum – og má því ætla virði hlutarins sem Reynir selur núna sé metinn á allt að 10 milljarða.

Creditinfo sérhæfir sig í miðlun fjárhags- og viðskiptaupplýsinga og ráðgjöf tengdri áhættumati og áhættustýringu fyrirtækja. Áratugum saman hefur fyrirtækið boðið gögn, áhættustýringu og lausnir á sviði útlána til nokkurra stærstu lánveitenda, ríkisstjórna og seðlabanka heims. Fyrirtækið var stofnað á Íslandi 1997 og hjá því starfa rúmlega 400 manns í yfir 30 starfsstöðvum um allan heim. Reynir steig til hliðar sem forstjóri fyrir meira en þremur árum eftir að hafa staðið í brúnni í tuttugu ár.

„Það má segja að að ferlið hafi hafist þá vegna þess að ef þú ert bæði eigandi og forstjóri þá geturðu ekki selt fyrirtæki nema með því að selja sjálfan þig með. Kaupendur vilja ákveðinn stöðugleika,“ segir Reynir. Fyrir um einu og hálfu ári hófst síðan leit að kaupanda sem tafðist vegna kórónukreppunnar.

„Ef ég ætti að gefa ungum frumkvöðlum heilræði þá væri það að halda fast í sköpunarverkið eins lengi og þú getur.“

Kaupandinn LLCP er með um 11,7 milljarða Bandaríkjadala, jafnvirði um 1.500 milljarða króna, í stýringu og hefur fjárfest í yfir 90 fyrirtækjum. Reynir segir að einn stærsti hluthafinn í sjóðnum sé sænska Kamprad-fjölskyldan, afkomendur Ingvars Kamprad, stofnanda IKEA-keðjunnar. „Þetta eru alvöru fjárfestar,“ bætir Reynir við. Saga LLCP, teygir sig 37 ár aftur í tímann. Frá stofnun hefur sjóðurinn haft umsjón með um það bil 11,7 milljörðum Bandaríkjadala af stofnanafjármagni.

Ólíkt mörgum framtakssjóðum sem leita bágstaddra fyrirtækja sem fást fyrir lítið, hefur LLCP þá nálgun að finna vel rekin fyrirtæki að sögn Reynis. „Það verður ekki mikil breyting. Þeir halda líklega áfram á sömu braut og eru í raun heppilegri eigandi en ég er. Það eru mikil tækifæri fólgin í því að kaupa fyrirtæki í sama geira og sameina þau en ég sem eigandi hef ekki fjárhagslegt bolmagn í það.“

Í tilkynningunni um kaupin var haft eftir Paul Randall, forstjóra Creditinfo Group, að mikil tækifæri fælust í því að fá LLCP inn í hluthafahópinn.

„Með aðkomu nýs, reynslumikils og kröftugs fjárfestis, sem styður við markaðssókn og vöxt fyrirtækisins, verður mögulegt að styrkja enn frekar vöruframboð okkar á sviði áhættugreiningar og fjártækni,“ sagði Randall. Hann sagði sterka stöðu Creditinfo á bæði þróuðum mörkuðum og nýmörkuðum renna stoðum undir „umtalsverða vaxtarmöguleika“.

Creditinfo hagnaðist um 3,38 milljónir evra á árinu 2019, sem var meira en tvöföldun frá árinu áður. Heildartekjur Creditinfo á árinu 2019 námu um 46,7 milljónum evra, en þar af var um tíundi hluti vegna starfsemi í Afríku. Gera áætlanir fyrirtækisins ráð fyrir að tekjuvöxtur rekstrareininga í Afríku geti numið 30 prósentum á ári næstu tvo áratugi. Hins vegar kom nokkurt bakslag í starfsemi Creditinfo í Afríku vegna farsóttarinnar.

Mögulegt er að höfuðstöðvar Cred­itinfo verði fluttar úr landi.Vand­fundin eru íslensk fyrirtæki sem hafa jafn víðtæk umsvif á erlendri grundu og Creditinfo. Höfuðstöðvarnar eru á Höfðabakka en minnkandi vægi starfseminnar á Íslandi og nýtt eignarhald gæti á endanum breytt því. „Vægi starfseminnar á Íslandi hefur minnkað hægt og rólega í gegnum tíðina og það mun væntanlega halda áfram,“ segir Reynir. Stjórnendahópur og stefna Creditinfo á Íslandi er hins vegar óbreytt.

Spurður um heilræði fyrir íslenska frumkvöðla leggur Reynir áherslu á úthald og þolinmæði.

„Stundum sé ég Íslendinga þróa sniðuga hugmynd, setja hana á markað og selja síðan reksturinn eftir fáein ár. Jafnvel fyrir nokkrar milljónir dala. Ef ég ætti að gefa ungum frumkvöðlum heilræði þá væri það að halda fast í sköpunarverkið eins lengi og þú getur. Þá geturðu náð langt.“

Aðspurður segist Reynir ekki vita hvað hann ætli að taka sér fyrir hendur. „Ætli maður verji ekki tíma og pening í að hjálpa til að búa til störf í þessu ástandi. Ég verð að gera eitthvað.“