Creditinfo var valið þekkingarfyrirtæki ársins af Félagi viðskipta- og hagfræðinga en verðlaunin voru veitt á Íslenska þekkingardeginum í gær.

Við val á þekkingarfyrirtæki ársins 2019 var horft til þeirra fyrirtækja sem hafa skarað fram úr á erlendum mörkuðu síðastliðin ár. Var horft til þeirrar stefnumótunar og hugmyndafræði sem bjó að baki þeim árangri sem markaðssókn erlendis hefur borið. Einnig hvernig fyrirtæki óx erlendis og hver væri framtíðarsýn fyrirtækis með tilliti til erlendrar sóknar.

Auk Creditinfo voru CCP, Marel og Nox Medical tilnefnd til verðlaunanna. Dómnefndin var skipuð Björgvin Inga Ólassyni, Deloitte Consulting, Dögg Hjaltalín, Herdísi Helgu Arnalds, frumkvöðli og vörustjóra hjá Valitor, Katrínu Amni Friðriksdóttur, framkvæmdastjóra FVH, Lilju Gylfadóttur, Arion banka, og Ólafi Erni Nielsen, framkvæmdastjóra Kolibri.

Sókn Creditinfo á erlenda markaði er sögð einstök að því leiti að hún byggir á innrás á markaði sem önnur íslensk fyrirtæki sækja ekki gjarnan til. Frá stofnun fyrirtækisins árið 1997, undir merkjum Lánstrausts, hafi fyrirtækið sótt fram með framsæknum hugbúnaðarlausnum og markvissri nálgun til viðskiptavina sinna með eftirtektarverðum hætti.

Á árinu 2002 steig félagið sín fyrstu skref til vaxtar utan Íslands og er nú svo komið að 25 lánshæfismatsfyrirtæki (e. credit bureau) í fjórum heimsálfum nýta lausnir Creditinfo. Í samstarfi við World Bank og IFC hefur Creditinfo sótt fram á margvíslegum vanþróaðri mörkuðum, meðal annars í Kenía, Srí Lanka Óman og í Palestínu. Starfsemi á óþroskaðri mörkuðum krefst sveigjanleika, framsýni og aðlögunarhæfni sem Creditinfo býr yfir og hefur vöxtur félagsins verið stöðugur og arðbær til margra ára.

Creditinfo gerir ráð fyrir áframhaldandi vexti á erlendum mörkuðum, sérstaklega samfara opnun nýrra tækifæra í Asíu.

Haraldur Þorleifsson til hægri.
Ljósmynd/Aðsend

Þá var Haraldur Þorleifsson, stofnandi og eigandi tækni- og vefhönnunarfyrirtækisins Ueno valinn viðskiptafræðingur ársins.

Haraldur hlýtur viðurkenninguna fyrir árangur við byggja upp frá grunni fyrirtæki sem er leiðandi á heimsvísu á sínu sviði en Uneo sérhæfir sig í því að skapa vörumerki, vörur og markaðsherferðir fyrir fyrirtæki með hönnun og tækni að leiðarljósi. Meðal viðskiptavina Ueno má nefna Google, Economist, Motorola, Microsoft, YouTube, Airbnb, Apple, Dropbox, Facebook, Google, Samsung og Uber. Þá hefur fyrirtæki nýverið fengið fagverðlaun margra af virtustu samtökum vefiðnaðarins fyrir herferðir sínar.

Haraldur sem einnig er vefhönnuður, stofnaði fyrirtækið einn síns lið í íbúð sinni í Reykjavík árið 2014. Fimm árum sienna eru um 65 starfsmenn og eru skrifstofur Ueno í dag í San Francisco, New York, Los Angeles og Reykjavík. Hann hefur á nokkrum árum skapað sér sess á meðal fremstu vefhönnuða í heiminum.