Verð á matvöru hækkar umfram vísitölu neysluverðs hjá þremur af fjórum íslenskum matvörukeðjum og -verslunum. Þetta kemur fram í niðurstöðum verðkönnunar sem Veritabus gerði í síðustu viku í verslunum Hagkaupa, Krónunnar, Heimkaupa og Samkaupa. Verð á matvöru hjá þremur þeirra hækkaði umfram niðurstöður verðkönnunar ASÍ sem gerð var mánaðamótin september-október í fyrra.

Saman eru þessar verslanir með 53 prósent af veltu matvörumarkaðarins. Bónus var ekki tekinn með í könnuninni. Ástæða þess er sú að mikil fylgni er milli vöruverðs í Bónus og Krónunni. Í flestum vöruliðum er Krónan að jafnaði einni krónu dýrari en Bónus og munur á meðalverði á bilinu 1 til 1,5 prósent.

Veritabus kannaði einnig vörukörfu sem innihélt 45 vörur. Karfan endurspeglar helgarinnkaup fjögurra manna fjölskyldu og er meðalverð hennar nú um 24 þúsund.

Verðbreytingar á matvöru frá því um mánaðamótin september-október 2021 liggja á bilinu -2 til +18 prósent.

Á sama tíma hækkaði vísitala neysluverðs um 2,3 prósent en slá verður þann varnagla að engar janúarmælingar eru komnar inn í vísitöluna.

Innkaupakarfan hækkar mikið í Heimkaupum og Nettó samanborið við Hagkaup og Krónuna. Skýringin hvað Heimkaup varðar kann að vera að verslunin sé markvisst að færa sig yfir í dýrari enda markaðarins en allt fram á síðasta ár skipuðu Heimkaup sér í flokk ódýrari verslana.

Þegar verðbreytingar á vörukörfunni á Covid-tímabilinu eru skoðaðar virðist sem hækkun matarverðs vegna Covid sé fyrst núna að koma fram með afgerandi hætti. Vitað er að miklar erlendar hækkanir eru í pípunum vegna vandamála með aðfangakeðjuna og hækkana á verði hrávöru og orkuverði.