Verslun Costco í Kauptúni velti 8,65 milljörðum króna frá því að hún var opnuð 23. maí í fyrra og fram til 31. ágúst sama ár en alls var 372 milljóna króna tap af rekstri Costco á Íslandi á tímabilinu. 

Þetta kemur fram í nýbirtum ársreikningi Costco á Íslandi sem Viðskiptablaðið greinir frá. Ársreikningurinn nær frá 1. september 2016 til 31. ágúst 2017.

Í frétt Viðskiptablaðsins kemur fram að ef veltan er umreiknuð í heilsársveltu samsvari hún ríflega 30 milljörðum króna en tekið er fram að meðalveltan kunni að hafa dregist saman frá því að reksturinn hófst.

Í því samhengi er nefnt að smásöluhluti Festar sem samanstendur af Krónunni, Nóatúni, Elko og Bakkanum vöruhóteli hafi velt samtals 39,8 milljörðum króna á síðasta rekstrarári.

Vitnað er í skýrslu stjórnar en þar segir að tapið hafi verið viðbúið vegna kostnaðar við opnun verslunarinnar og hafi verið í samræmi við áætlanir stjórnenda. 

Rekstrarkostnaður nam 1,5 milljörðum króna, þar af námu laun og launatengd gjöld 860 milljónum króna. Var framlegð rekstrarársins 912 milljónir króna.  

Eignir félagsins voru metnar á 11 milljarða króna í árslok. Þar af var bókfært verð lóðar og fasteignar félagsins í Kauptúni um 5,2 milljarðar króna og áhöld og innréttingar voru bókfærðar á 833 milljónir króna. Félagið átti vörubirgðir sem metnar voru á 2,2 milljarða króna í lok árs 2017 og handbært fé upp á 2,6 milljarða króna.

Þá kemur fram að opnun verslunarinnar hafi verið fjármögnuð með 7,8 milljarða hlutafjárframlagi frá móðurfélaginu Costco Wholesale International Inc. Í lok reikningsársins störfuðu 397 fyrir Costco á Íslandi, þar af voru 216 í starfsmenn í fullu starfi og 181 í hlutastarfi.