Lyfjafyrirtækið Cori­pharma, sem var stofnað árið 2018 til þess að kaupa og reka lyfjaverksmiðju Actavis í Hafnarfirði, hefur lokið hlutafjáraukningu upp á samanlagt fimmtán miljónir evra, jafnvirði ríflega tveggja milljarða króna. Fjármögnunin verður nýtt til þess að standa straum af kostnaði við þróun á eigin samheitalyfjum á næstu árum, að sögn Bjarna K. Þorvarðarsonar, forstjóra og eins af stærstu eigendum Coripharma.

„Við erum með í pípunum að þróa þrettán samheitalyf sem stefnt er á að verði komin á markað innan þriggja ára,“ segir Bjarni í samtali við Markaðinn.

Fyrri hluthafar Coripharma komu með um þriðjung fjármagnsins en aðrir fjárfestar, tuttugu talsins, tryggðu sér tvo þriðju hluta af nýja hlutafénu. Er þar einkum um innlenda einkafjárfesta að ræða, að sögn Bjarna. Fyrirtækjaráðgjöf Kviku banka hafði umsjón með hlutafjáraukningunni.

Miðað við gengið í hlutafjárútboðinu er heildarvirði Coripharma liðlega fimm milljarðar króna.

„Við hófum hlutafjársöfnun í nóvember og settum okkur metnaðarfull markmið um að klára hana í febrúar,“ útskýrir Bjarni. Það hafi gengið vonum framar.

„Þó svo að maður hafi auðvitað tröllatrú á verkefninu var áhuginn jafnvel meiri en við þorðum að vona. Flestir fjárfestar hér á Íslandi þekkja þá vegferð sem við erum á og fylgdust vel með forvera okkar, Actavis, og uppgangi þess fyrirtækis. Leiðin sem við erum að fara til þróunar og framleiðslu samheitalyfja er vel vörðuð. Fjárfestum líður þannig vel með þá stöðutöku sem verið er að taka og skilja áhættuna vel. Það skiptir miklu máli þegar farið er út í fjárfestingar sem þessar,“ nefnir hann.

Coripharma hóf undirbúning að verktökuframleiðslu á lyfjum fyrir alþjóðleg lyfjafyrirtæki með kaupum á verksmiðju Actavis af lyfjarisanum Teva um mitt ár 2018. Við kaup þess á lyfjaþróun Actavis í maí í fyrra eignaðist Coripharma allar þróunar- og framleiðslueiningar Actavis á Íslandi og starfa þar nú um 110 manns. Fyr­ir­tækið ger­ir ráð fyr­ir að í lok árs­ins verði starfs­menn orðnir um 140 tals­ins. Áætlanir gera ráð fyrir að tekjur félagsins verði um þrettán milljónir evra í ár.

Um er að ræða aðra hlutafjáraukningu lyfjafyrirtækisins en hlutafé þess var aukið um tíu milljónir evra við kaupin á lyfjaþróunarsviði Actavis í fyrra.

Síðar á þessu ári, útskýrir Bjarni, hyggst félagið sækja sér um tuttugu milljónir evra til viðbótar. Er þá meðal annars horft til stofnanafjárfesta.

„Viðskiptamódel okkar kallar á slíka fjármögnun á næstu tveimur til þremur árum. Við þurfum ekkert að huga að henni strax en það er nú líklegt að við viljum samt sem áður klára þá fjármögnun og verða fullfjármögnuð fyrir árslok. Það er afar mikilvægt þegar lyf eru boðin til sölu á stórum og þróuðum mörkuðum eins og í Evrópu að félagið geti sýnt fram á að það sé vel fjármagnað og í raun fullfjármagnað,“ segir hann.

Bjarni nefnir auk þess að ein af ástæðum þess að félagið hafi ekki leitað til lífeyrissjóða eða annarra stofnanafjárfesta um fjármögnun sé tímaáætlunin sem það hafi sett sér í ferlinu.

„Fjárfestar eins og lífeyrissjóðir þurfa að fylgja ferlum og tímaáætlunum sem eru lengri en hentuðu okkur. Þannig að við ákváðum að ræða nú við einkafjárfesta um þessar fimmtán milljónir evra og getum þá rætt við lífeyrissjóði og aðra stofnanafjárfesta í meiri rólegheitum um stærri upphæðir,“ segir Bjarni.

Stærstu hluthafar Coripharma eru framtakssjóðurinn TFII, sem er í stýringu Íslenskra verðbréfa, félagið BKP Invest, sem er í jafnri eigu Bjarna og Kenneths Peterson, stofnanda Norðuráls, tryggingafélagið VÍS og Eignarhaldsfélagið Hof í eigu bræðranna Sigurðar Gísla og Jóns Pálmasona.