Lyfjafyrirtækið Coripharma og Midas Pharma GmbH, þýskt fyrirtæki sem sérhæfir sig í verkefnastjórnun fyrir önnur lyfjafyrirtæki, hafa undirritað samning um samvinnu við framleiðslu og markaðssetningu á lyfjum til þriðja aðila. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Coripharma.

Með samvinnunni geta fyrirtækin nú boðið viðskiptavinum sínum samhæfðar lausnir sem auka skilvirkni í framleiðslu- og markaðssetningu á lyfjum sem þegar eru í sölu, eftir því sem fram kemur í tilkynningunni. Þá opni samningurinn möguleika á frekara samstarfi, meðal annars á sviði lyfjaþróunar. Vinna við eitt slíkt samstarfsverkefni sé þegar hafin.

Bjarni K. Þorvarðarson, forstjóri Coripharma, segir í tilkynningunni að félagið og Midas hafi unnið saman að mörgum verkefnum á síðustu mánuðum.

„Það er sérlega ánægjulegt að hafa nú undirritað formlegan samning um áframhaldandi samstarf til að veita viðskiptavinum beggja fyrirtækja enn betri þjónustu. Fyrir Coripharma þýðir þetta enn betra aðgengi að stærstu samheitalyfjamörkuðum Evrópu og víðar í gegnum öflugt sölunet Midas,“ nefnir Bjarni.

Coripharma hóf undirbúning verktökuframleiðslu á lyfjum fyrir alþjóðleg lyfjafyrirtæki með kaupum á verksmiðju Actavis í Hafnarfirði á miðju ári 2018. Við kaup þess á lyfjaþróun Actavis í maí í fyrra eignaðist félagið allar þróunar- og framleiðslueiningar Actavis á Íslandi og starfa þar nú tæplega eitt hundrað starfsmenn en nær allir eru fyrrverandi starfsmenn Actavis.