Nýsköpunarfyrirtækið Con­trolant, sem hefur þróað lausnir til þess að fylgjast með ástandi viðkvæmra vara, líkt og lyfja og matvara, lauk síðasta haust samtals um 960 milljóna króna hlutafjáraukningu. Erlendir fjárfestar komu með um fjórðung fjármagnsins.

Guðmundur Árnason, fjármálastjóri Controlant, segir í samtali við Markaðinn að hlutafjáraukningunni sé ætlað að standa straum af vexti og uppbyggingu félagsins en það sé nú í verulegum vexti á erlendum mörkuðum.

Fyrri hluthafar Controlant leiddu hlutafjáraukninguna en nýir fjárfestar, innlendir sem erlendir, bættust jafnframt í hluthafahópinn.

Samlagssjóðir Frumtaks Ven­tures eru stærsti hluthafi nýsköpunarfyrirtækisins en eignarhlutur þeirra nam tæplega 38 prósentum fyrir hlutafjáraukninguna. Aðrir stórir hluthafar í Controlant eru enn fremur fjárfestingafélagið TT Investments, sem er meðal annars í eigu Baldurs Guðlaugssonar, fyrrverandi ráðuneytisstjóra, og Kjartans Gunnarssonar, fyrrverandi framkvæmdastjóra Sjálfstæðisflokksins, Gísli Herjólfsson, framkvæmdastjóri og einn stofnenda Controlant, eigendur Málningar, fjárfestarnir Magnús Magnússon og Magnús Pálmi Örnólfsson, Bessi Gíslason lyfjafræðingur og Ingi Guðjónsson, stjórnarformaður og einn eigenda Lyfju, svo nokkur dæmi séu nefnd.

Rekstrartekjur Controlant námu ríflega 219 milljónum árið 2018, samkvæmt ársreikningi nýsköpunarfyrirtækisins, en Gísli Herjólfsson framkvæmdastjóri sagði í samtali við Morgunblaðið síðasta vor að gert væri ráð fyrir að tekjur á árinu 2019 yrðu yfir 500 milljónir króna.

Fyrirtækið skilaði rúmlega 605 milljóna króna tapi á árinu 2018 og jókst það umtalsvert frá árinu 2017 þegar það var um 324 milljónir króna. Rekstrargjöld jukust um 82 prósent á árinu og námu alls 820 milljónum króna en Gísli tók fram í fyrrnefndu viðtali að fyrirtækið væri í miklum uppbyggingarfasa sem hefði áhrif á afkomuna.