Controlant er hátæknifyrirtæki á sviði rauntíma vöktunarlausna fyrir alþjóðlega lyfjaiðnaðinn.
Teymið skipa Vicki Preibisch, forstöðumaður sjálfbærni, Sigurður Pétur Markússon og Unnur Þórdís Kristinsdóttir sérfræðingar í sjálfbærni, en þau gengu öll til liðs við Controlant í lok síðasta árs. Sjálfbærniteymið er hluti af Mannauðs- og sjálfbærnisviði Controlant sem Elín María Björnsdóttir, framkvæmdastjóri Mannauðs og sjálfbærni stýrir.
Gísli Herjólfsson, forstjóri og einn stofnanda Controlant, segir að sjálfbærni hafi aldrei verið mikilvægari fyrir viðskiptavini, starfsmenn, birgja, lánveitendur og hluthafa og nú.
„Við hjá Controlant erum drifin áfram af framtíðarsýn okkar um að útrýma sóun í einni mikilvægustu og dýrmætustu aðfangakeðju í heimi. Með rauntíma vöktunarlausn okkar vinnum við stöðugt að því að auka öryggi, rekjanleika og sjálfbærni í flutningi lyfja. Ég er ánægður með að hafa fengið Vicki til liðs við okkur. Vicki mun ásamt nýju sjálfbærniteymi hraða sjálfbærnivegferð okkar og styðja við vöxt og virðisaukningu til framtíðar,“ segir Gísli.
Vicki Preibisch er nýr forstöðumaður sjálfbærni hjá Controlant og mun í nýja hlutverki sínu leiða sjálfbærnivegferð fyrirtækisins. Ráðningin kemur í kjölfar innleiðingar sjálfbærnistefnu Controlant, aðildar að alþjóðasaminingi Sameinuðu Þjóðanna um innleiðingu heimsmarkmiða um sjálfbæra þróun.
Vicki er með yfir 16 ára alþjóðlega reynslu úr alþjóðlegu banka- og fyrirtækjaumhverfi. Hún er vottaður sérfræðingur á sviði sjálfbærni og loftslagsáhættu (SCR) frá Global Association of Risk Professionals.
Vicki starfaði áður hjá Marel þar sem hún sinnti fjárfestatengslum og sjálfbærnimálum frá árinu 2019. Hjá Marel leiddi Vicki sjálfbærni skýrslugerð félagsins og sá um samskipti við vottunaraðila á sviði UFS mála, ásamt því að setja vísindaleg markmið til að draga úr kolefnislosun félagsins. Áður en Vicki flutti til Íslands starfaði hún sem forstöðumaður á fjárfestingabankasviðiCitigroup í Amsterdam og vann sem sérfræðingur hjá Evrópska þróunarbankanum í London.
Sigurður Pétur Markússon er með B.Sc. gráðu í viðskiptafræði og M.Sc. gráðu í stjórnun nýsköpunar frá Háskólanum í Reykjavík. Í náminu fór Sigurður í skiptinám til IÉSEG School of Management í París þar sem hann stundaði nám í tvær annir. Sigurður er mikill áhugamaður um sjálfbærnimál. Í námi sínu einbeitti hann sér að sjálfbærri þróun og tók þátt í fjöldamörgum nýsköpunarkeppnum þar sem hann sameinaði áhuga sinn á sjálfbærni og nýsköpun.
Sigurður kom einnig fram fyrir hönd Háskólans í Reykjavík á ráðstefnu um hringrásar hagkerfið í Búkarest og á University Startup World Cup í Kaupmannahöfn. Hann hefur einnig tekið þátt í að setja á fót fyrirtæki á sviði kolefnisjöfnunar og verið í tvöföldu starfsnámi í sjálfbærniteymi nýsköpunardeildar Marel.
Unnur Þórdís Kristinsdóttir er með B.Sc. gráðu í viðskiptafræði frá Háskólanum í Reykjavík og fjallaði lokaverkefni hennar um UFS áhættumat í smásölu matvæla. Á meðan hún stundaði námið fór hún í skiptinám til Esade viðskiptaháskóla í Barcelona. Meðfram námi tók Unnur starfsnám hjá Iceland Seafood Ibérica þar sem hún framkvæmdi markaðsrannsókn í tengslum við frosnar fiskafurðir.
Unnur starfaði áður sem greinandi hjá Marel þar sem hún vann með forstöðumanni alþjóðlegs sölusviðs við uppbyggingu nýrrar sölueiningar. Í starfi sínu hjá Marel sá Unnur um að setja upp mælaborð fyrir árangursmælikvarða, alþjóðlega uppgjörsfundi, styðja við rekstur söludeildarinnar auk þess að taka þátt í verkefnum á sviði sjálfbærrar þróunar.