Þorsteinn Friðrik Halldórsson
tfh@frettabladid.is
Miðvikudagur 30. september 2020
06.00 GMT

Hátæknifyrirtækið Controlant hefur gengið frá hlutafjáraukningu upp á meira en 2 milljarða króna, sem ætlað er að renna stoðum undir fáheyrðan tekjuvöxt. Samningar, sem Controlant hefur gert við alþjóðlega lyfjarisa og varða meðal annars dreifingu á bóluefni gegn COVID-19 á heimsvísu, verða til þess að fyrirtækið tífaldar veltu sína á tveimur árum.

Controlant hefur þróað hugbúnaðar- og vélbúnaðarlausnir til að fylgjast með vörum í flutningi og halda uppi rauntímaeftirliti á allri virðiskeðjunni, svo hægt sé að fylgjast með ástandi og staðsetningu vörunnar hvar sem er í heiminum. Íslenska fyrirtækið hafði fyrr á árinu gefið út breytanlegt skuldabréf að fjárhæð 1.250 milljónir króna.

„Skuldabréfinu var ætlað að fjármagna innleiðingu á lausninni hjá okkar helstu viðskiptavinum og koma okkur á góðan stað fyrir næstu hlutafjáraukningu. Svo gerist það í sumar að áætlanir okkar snarbreytast. Það sem við bjuggumst við að myndi gerast á næstu tveimur árum er að fara að gerast á 6-12 mánuðum. Þess vegna þurftum við að flýta næstu hlutafjáraukningu og við gengum frá henni núna í september,“ segir Guðmundur Árnason, fjármálastjóri Controlant, í samtali við Markaðinn.

Stjórnendur Controlant, í samstarfi við Arion banka, lögðu upp með að sækja 1 milljarð króna, en niðurstaðan varð sú að félaginu bárust áskriftir að fjárhæð rúmlega 2 milljarðar króna. Ákveðið var að stækka hlutafjárútboðið í samræmi við eftirspurnina.

„Við erum að fá stofnanafjárfesta í hópinn, sem eru almennt ekki að fjárfesta í félögum eins og Controlant. Það sýnir hversu mikla trú fjárfestar hafa á félaginu.“

Hlutafjáraukningin skiptist nokkurn veginn til helminga, að sögn Guðmundar. Núverandi hluthafar tóku helming og nýir hluthafar hinn. Þeirra á meðal eru bæði stofnanafjárfestar og einkafjárfestar. „Við erum að fá stofnanafjárfesta í hópinn, sem eru almennt ekki að fjárfesta í félögum eins og Controlant. Það sýnir hversu mikla trú fjárfestar hafa á félaginu,“ segir Guðmundur. Alls hafa fjárfestar lagt Controlant til rúmlega 6 milljarða króna frá stofnun þess.

„Við vorum með rétt um 400 milljóna króna veltu á síðasta ári og hún stefnir í um 1 milljarð á þessu ári. Miðað við þá samninga sem við höfum gert, erum við að horfa fram á veltu upp á 4-5 milljarða króna á árinu 2021,“ segir Guðmundur. Hann bætir við að starfsmenn fyrirtækisins séu í dag um 100 talsins, en verði líklega hátt í 200 í lok næsta árs.

Miðpunktur í dreifingu bóluefnis

Samningar við nokkur af stærstu lyfjafyrirtækjum heims, standa undir mestum hluta af væntri tekjuaukningu Controlant, sem verður í lykilhlutverki í dreifingu á bóluefni gegn COVID-19, sem viðskiptavinir Controlant stefna að því að hefja framleiðslu og dreifingu á, fyrir lok árs og fyrripart næsta árs.

„Það eru heilmiklar áskoranir í dreifingu bóluefna. Sum þeirra þarf að flytja og geyma í djúpfrosti, mínus 80 gráðum, og þola ekki nema nokkra daga utan þess. Þetta verður því ekki hefðbundin dreifing þar sem vörum er dreift til dreifimiðstöðva, þaðan til heildsala og síðan heilsugæsla. Sendingarnar þurfa að fara beint frá framleiðanda til endastaða, þar sem bólusetningin á sér stað,“ segir Gísli Herjólfsson, framkvæmdastjóri og einn af fimm stofnendum Controlant.

„Okkar lausn verður miðpunkturinn í því að halda utan um dreifingu þessara bóluefna um allan heim og tryggja gæði þeirra þangað til þau koma á áfangastað.“

„Að þessu leyti er Controlant orðinn krítískur birgir hjá lyfjafyrirtækjunum. Okkar lausn verður miðpunkturinn í því að halda utan um dreifingu þessara bóluefna um allan heim og tryggja gæði þeirra þangað til þau koma á áfangastað.“

Er ekki krefjandi að halda í við tíföldun tekna á svo skömmum tíma?

„Jú, það er heilmikil vinna fólgin í því að skala starfsemina upp og ráða við þetta allt saman. Það sem við töldum að myndi gerast á tveimur til þremur árum er þjappað saman í 12 til 18 mánuði. En á móti kemur að við erum vel undirbúin. Þetta er afrakstur af sölustarfi síðustu tveggja ára, sem hefur landað okkur samningum koll af kolli,“ segir Guðmundur.

Þá bætir hann við að tíföldun tekna á tveimur árum krefjist þó ekki nema rúmlega þreföldunar á mannskap í tilfelli Controlant. Auk þess sé fyrirtækið í samstarfi við bandarískan framleiðanda um framleiðslu á vélbúnaðinum, sem hafi alla burði til þess að auka framleiðslu í takt við eftirspurn.

Breytt stefna gaf góða raun

Controlant, sem var stofnað árið 2007 í kringum þróun á þráðlausum skynjurum, var ekki með skýra viðskiptaáætlun í upphafi. Fyrsta hugmyndin var að þróa þráðlausa þrýstiskynjara í dekk fyrir breytta jeppa, en fljótlega kom í ljós að ekki væri hægt byggja upp stórt fyrirtæki í kringum þann litla markað.

„Síðan gerist það árið 2009, þegar svínaflensan er að ganga, að við náum samningi við sóttvarnalækni um vöktun á öllum bóluefnageymslum landsins. Það var fyrsta skrefið inn í lyfjageirann og við sáum strax að það væri mikil þörf fyrir tækni sem vaktar ástand og gæði lyfja,“ segir Gísli.

Gísli og Guðmundur hafa í nægu að snúast um þessar mundir.
Fréttablaðið/Ernir

Tæknilausn Controlant náði útbreiðslu á Íslandi. Notkun hennar til þess að vakta geymslu lyfja á íslenskum heilbrigðisstofnunum og dreifingu þeirra innanlands, varð til þess að skemmdir á lyfjum og bóluefnum á Íslandi vegna hitastigsfrávika er nánast úr sögunni.

Árangurinn gaf góða ástæðu til þess að hefja sölustarf utan landsteinanna. Fyrst náðust samningar í Danmörku, því næst Bretlandi og loks í Bandaríkjunum.

„Það má segja að Controlant hafi farið á flug fyrir þremur árum þegar við ákváðum að breyta um stefnu. Þá breyttum við viðskiptalíkaninu þannig að við seljum áskriftir að þjónustu í stað þess að selja vélbúnað og við byrjuðum að leggja áherslu á stóru lyfjafyrirtækin, sem sjá um dýra lyfjadreifingu um allan heim. Um þetta leyti byrjar vöktun á lyfjum að fara í gegnum stafræna byltingu og við töldum að okkar lausn gæti verið leiðandi á þeim markaði,“ segir Gísli.

Árangurinn spyrst út

Tveir atburðir urðu til þess að ýta enn frekar undir vöxt Controlant, sem hefur landað samningum við sex af stærstu lyfjafyrirtækjum heims. Lyfjarisinn Allergan greindi frá því á ráðstefnu á síðasta ári að tæknilausn íslenska fyrirtækisins hefði bjargað 50 milljóna dala sendingum á fyrstu þremur mánuðunum eftir að lyfjaframleiðandinn hóf að prófa lausnina. Ákvörðun um innleiðingu var því auðveld.

„Árangurinn spyrst út og við erum komin á þann stað að stórfyrirtæki leita til okkar að fyrra bragði. Þeir sem eru á annað borð að skipta um birgi eru að koma yfir til okkar,“ segir Guðmundur.

Þá hefur kórónafaraldurinn aukið vitund um mikilvægi þess að hafa góða sýn yfir virðiskeðjuna.

„Það hefur orðið mikil röskun á flutningskeðjum heimsins. Flugfrakt hefur dregist verulega saman og fyrirtæki þurfa að hafa góða yfirsýn yfir flutningskeðjuna. Okkar lausn, sem er ekki einungis vöktun á hitastigi heldur upplýsingakerfi fyrir alla aðfangakeðjuna, skilar því verulegum ávinningi,“ segir Guðmundur.

Áætluð sóun lyfja vegna hitastigsfrávika nemur að hans sögn um 35 milljörðum Bandaríkjadala á heimsvísu og áætlað er að um 35 prósent af bóluefnum skemmist í flutningi eða geymslu.

Hvernig standið þið gagnvart keppinautum?

„Við teljum að við séum einu til tveimur árum á undan helstu keppinautum, hvað varðar upplýsingar um ástand, gæði og dreifingu á vöru í gegnum alla aðfangakeðjuna. Við finnum fyrir samkeppni í verði, en ef ávinningur viðskiptavina er skoðaður stöndum við öðrum langt framar,“ segir Guðmundur.

Matvælin næst á dagskrá

Yfir 90 prósent af tekjum Controlant eru tengd lyfjageiranum, en fyrirtækið starfar einnig með fyrirtækjum í matvælageiranum. Gríðarmikil vaxtartækifæri felast í því að nota tæknilausn Controlant til þess minnka sóun matvæla að sögn Guðmundar.

„Við höfum sett fókusinn fyrst og fremst á lyfjageirann og þar erum við að vaxa mjög hratt. En við sjáum fyrir okkur að sækja inn í matvælageirann. Samanlagður markaður fyrir tæknilausn af þessu tagi hleypur á hundruðum milljarða króna til lengri tíma litið og við ætlum okkur að ná góðri hlutdeild á þeim markaði.“

Hvernig hafið þið hagað sölu- og markaðsstarfinu?

„Við höfum verið að nálgast stóru lyfjafyrirtækin á sýningum og ráðstefnum, sem snúast um gæðaeftirlit í flutningskeðjum. Þó að þessi stórfyrirtæki séu með tugi þúsunda manna í vinnu, þá er hópurinn sem ber ábyrgð á þessum hluta starfseminnar tiltölulega lítill. Með því að vera sýnileg á ráðstefnum og vera með mjög öflugt fólk til þess að fylgja því eftir, höfum við náð þetta langt. Við þurfum ekki stóran söluher til þess að sinna sölustarfi, heldur frekar að vera sýnileg á réttum tíma og á réttum stað,“ segir Guðmundur. Hann bætir við að þörfin fyrir uppbyggingu á sölustarfsemi erlendis hafi að einhverju leyti minnkað eftir COVID-19, þegar fundahöld og ráðstefnur færðust yfir á netið.

Controlant graf.PNG

Hvernig skiptist starfsemin?

„Rekstur og þróun er fyrst og fremst á Íslandi og þar eru flestir starfsmenn. Við erum að fjölga starfsmönnum í Bandaríkjunum og Evrópu í takt við fjölgun viðskiptavina. Þetta eru að miklu leyti viðskiptastjórar, sem eru staðsettir nálægt viðskiptavinum og sinna þeim.“

Er lyfjageirinn á Íslandi að taka við sér?

„Já, mér sýnist það. Það er frábært að sjá uppganginn hjá Alvotech og plön þeirra varðandi framleiðslu og dreifingu frá Íslandi. Ég held að þetta sé eitt af lykilfyrirtækjunum í því að byggja upp hátækniiðnað á Íslandi á næstu árum. Og það hefur sýnt sig að svona fyrirtæki hafa afleidd áhrif. Þau skapa grundvöll fyrir önnur fyrirtæki sem sinna þeim og þjónusta.

Það er einnig ánægjulegt að sjá starfsemi Actavis fá nýtt líf hjá Coripharma. Íslenskt samfélag þarf að halda áfram að renna stoðum undir þessa atvinnugrein, sem og aðrar hátæknigreinar, með því að mennta fólk sem getur unnið við sérhæfð störf í þessum geirum. Við þurfum einnig að tryggja umhverfi sem er til þess fallið að laða til okkar sérhæft starfsfólk að utan.“

Gjá í fjármögnun

Uppbygging á rekstri Controlant hefur verið fjármagnsfrek en á síðustu þremur árum nemur uppsafnað tap félagsins 1.740 milljónum króna. Guðmundur segir áætlanir gera ráð fyrir að félagið byrji að skila hagnaði á næsta ári.

„Það er ákveðin gjá í fjárfestingaumhverfi nýsköpunarfyrirtækja á Íslandi. Það eru engir vaxtasjóðir sem fjárfesta í félögum sem eru orðin of stór fyrir vísisjóði (e. venture capital), en eru ekki komin með jákvætt sjóðsstreymi.

Fyrstu árin sóttum við í vísisjóði, sem hafa stutt félagið vel, en fjármagnsþörfin í dag er langt umfram það sem þessir sjóðir geta fjárfest í einu fyrirtæki. Þar með þurftum við að stækka fjárfestahópinn töluvert til þess að geta sótt nægilegt fjármagn og höfum fengið inn fjársterka hluthafa síðustu ár sem hafa stutt félagið vel til að standa undir þeim vexti sem fram undan er.

Annaðhvort verða félög því að sækja til slíkra aðila eða sækja fjármagn til erlendra sjóða. Það væri frábært að sjá umhverfi fyrir vaxtarfjárfestingar þróast lengra á Íslandi í framtíðinni, til að renna frekari stoðum undir uppbyggingu næstu kynslóða hátæknifyrirtækja og feta þar með í fótspor fyrirtækja eins og Marels, Össurar og CCP.“

Sjóvá og VÍS bætast í hópinn

Tryggingafélögin Sjóvá og VÍS voru á meðal þeirra stofnanafjárfesta sem komu nýir inn í hluthafahóp Controlant eftir hlutafjáraukninguna. Samlagssjóðir Frumtaks Ventures eru stærsti hluthafi hátæknifyrirtækisins.

Aðrir stórir hluthafar í Controlant eru enn fremur fjárfestingafélagið TT Investments, sem er meðal annars í eigu Baldurs Guðlaugssonar, fyrrverandi ráðuneytisstjóra, og Kjartans Gunnarssonar, fyrrverandi framkvæmdastjóra Sjálfstæðisflokksins, Gísli Herjólfsson, framkvæmdastjóri og einn stofnenda Controlant, eigendur Málningar, fjárfestarnir Magnús Magnússon og Magnús Pálmi Örnólfsson, Bessi Gíslason lyfjafræðingur og Ingi Guðjónsson, stjórnarformaður og einn eigenda Lyfju, svo nokkur dæmi séu nefnd.

Athugasemdir