Sjón­varps­risinn Com­cast virðist ætla að hafa betur í bar­áttunni við fjöl­miðla­veldi Ruperts Mur­doch, 21st Century Fox, um evrópska fjöl­miðla­fyrir­tækið Sky. Com­cast hefur boðið yfir 30 milljarða punda í Sky, jafnvirði um 4.339 milljarða króna.

Í frétt BBC segir að boð Com­cast sé 17,28 pund á hlut en Fox bauð 24,5 milljarða punda í sumar á verðinu 15,67 pund á hlut. Um er að ræða 61 prósent hlut í Sky. 

For­svars­menn Com­cast virðast vera farnir að fagna en þeir sögðu daginn í dag vera frá­bæran fyrir fyrir­tækið. Við­búið er að Sky taki til­boðinu enda sé út­koman nokkuð góð frá fyrri boðum.

Brian Roberts, for­stjóri Com­cast og for­maður stjórnar fé­lagsins, segir að Sky sé gott fyrir­tæki og að í kaupunum séu miklir mögu­leikar fólgnir. Hann kveðst búast við því að hlut­hafar í Sky sam­þykki til­boðið og að hægt verði að ganga frá kaupum fyrir lok októ­ber.

Fox hefur við yfir­töku­til­raunina notið stuðnings banda­ríska fjöl­miðlarisans Dis­n­ey, en Dis­n­ey hefur hug á að eignast hluta af eignum og rekstri Fox, þar með talið 39 prósenta hlut þess í Sky. 

Biðin eftir kaupunum á Sky hefur verið nokkur. Meðal þess sem spilaði inn í og tafði fyrir fjöl­miðla­mógúlnum Mur­doch var að bresk yfir­völd þurftu að sam­þykkja kaup Fox. Þau lögðu síðan blessun sína yfir kaupin í júlí en óttast hafði verið að um­svif Mur­doch yrðu of mikil á breskum fjöl­miðla­markaði. 

Sky er eitt stærsta fjöl­miðla­fyrir­tæki Evrópu. Þar má nálgast ýmist af­þreyingar­efni auk þess sem miðillinn er með sýningar­rétt að ensku úr­vals­deildinni.