James Qu­incey, for­stjóri Coca Cola, segir að fyrir­tækið muni ekki setja fjár­magn í aug­lýsingar á sam­fé­lags­miðlum næstu 30 dagana að minnsta kosti. Telur fyrir­tækið að sam­fé­lags­miðlar þurfi að sýna af sér á­byrgari hegðun og gera meira til að koma í veg fyrir hatur­s­orð­ræðu.

„Það er ekkert pláss fyrir ras­isma í heiminum og það er ekki pláss fyrir ras­isma á sam­fé­lags­miðlum,“ sagði Qu­incey í yfir­lýsingu sem birtist á vef Coca Cola í gær.

Coca Cola fetar þarna í fót­spor fjöl­margra annarra fyrir­tækja sem tekið hafa þátt í her­ferð undir myllu­merkinu #Stop­Hatef­or­Profit. Face­book er vin­sælasti sam­fé­lags­miðill heims og fær miðillinn gríðar­legar tekjur vegna sölu aug­lýsinga.

Rekja má lækkun hluta­bréfa í Face­book til her­ferðarinnar, en gengi bréfa féll um 8,3 prósent á föstu­dag. Það sam­svarar 45 milljörðum Banda­ríkja­dala og miðað við eignar­hlut Marks Zucker­bergs, stofnanda Face­book, tapaði hann 7,2 milljörðum dala á föstu­dag við fall hluta­bréfa.

Í frétt BBC er haft eftir for­svars­mönnum Coca Cola að með þessu sé fyrir­tækið ekki að taka beinan þátt í um­ræddri her­ferð. Meðal þekktra fyrir­tækja sem hafa lagt nafn sitt við bar­áttuna má nefna Magnoli­a Pictures, Mozilla, Patagonia, The North Face og Verizon.