Alþjóðlega uppgjörsfyrirtækið Clearstream tilkynnti í byrjun vikunnar að íslensk skuldabréf verði á ný hæf til uppgjörs og vörslu hjá viðskiptavinum Clearstream Banking vegna undanþágu frá skattskyldu vaxtatekna hjá aðilum með takmarkaða skattskyldu.

„Clearstream er að opna á vörslu skuldabréfa í eigu erlenda aðila sem eru með takmarkaða skattskyldu á Íslandi. Skilyrði er að vextir af skuldabréfinu séu undanþegnir frá skattskyldu,“ segir Þóra Björk Smith, sérfræðingur hjá Nasdaq verðbréfamiðstöð, í samtali við Markaðinn.

Á Íslandi er fyrirkomulagið þannig að fjármálafyrirtæki eru staðgreiðslu- og skilaskyld, þ.e.a.s. þau eru með kerfi til þess að reikna út, draga af og skila fjármagnstekjuskatti af vaxtatekjum til ríkissjóðs.

„Útreikningur skatta á vexti sem myndast við söluhagnað skuldabréfa hafa reynst Clearstream sérlega erfiðir viðfangs, þar sem upplýsingar um kaupverð eru ekki tiltækar í þeirra kerfum. Tekjur ríkissjóðs af slíkri skattheimtu eru nánast engar því aðilarnir sem um ræðir eru með takmarkaða skattskyldu og eru því undanþegnir,“ segir Þóra. Þá bendir hún á að hvergi fundist slíkar kröfur á milliliði eins og á Íslandi. Þetta hafi því verið séríslenskt fyrirkomulag.

„Þegar Seðlabankinn afnemur innflæðishöftin á síðasta ári var ekki svo mikil aukning í innflæði inn á verðbréfamarkaðinn. Við teljum að þetta sé ein af ástæðunum og höfum verið að vinna með Clearstream í að finna lausn. Erlendur fjárfestir sem hefur áhuga á að kaupa íslensk verðbréf vill geta varslað verðbréfin í gegnum erlendan viðskiptabanka sinn, sem notar vörsluaðila á borð við Clearstream, í stað þess að stofna vörslureikning hjá íslenskum banka,“ segir Þóra.

Þóra segir að undanþágan og ákvörðun Clearstream séu skref í því að auðvelda erlendum fjárfestum að koma inn á íslenska verðbréfamarkaðinn, en að auki vinnur Nasdaq verðbréfamiðstöð að innleiðingu á nýju uppgjörskerfi sem byggir á alþjóðlegum stöðlum sem ætla má að fækki hindrunum og muni auðvelda þeim enn frekar að koma inn á markaðinn.

„Framkvæmd uppgjörs viðskipta hefur verið með séríslenskum og óstöðluðum hætti sem hefur fælt erlenda fjárfesta frá. Með því að innleiða alþjóðlega staðla og afnema séríslenskt verklag eins og kostur er verður fjárfestum auðveldað að ljúka uppgjöri með íslensk verðbréf svo um munar,“ segir Þóra.