Enski lögmaðurinn Claire Broomhead, sem hefur undanfarin ár verið eigandi hjá LOGOS og starfað á skrifstofu lögmannsstofunnar í London, hefur gengið til liðs við BBA/Fjeldco í London sem eigandi. Ráðning Claire er sögð styrkja enn frekar alþjóðlega starfsemi stofunnar en hún varð til við sameiningu BBA Legal og Fjeldsted & Blöndal fyrr í haust.

Fyrir á skrifstofu BBA/Fjeldco í London er hæstaréttarlögmaðurinn Gunnar Þór Þórarinsson en hann starfaði áður um árabil með Claire á LOGOS.

Claire hefur umfangsmikla reynslu af fyrirtækjalögfræði, samrunum og kaupum og sölum fyrirtækja, fjárhagslegri endurskipulagningu félaga og almennri ráðgjöf við fyrirtæki, og hefur unnið að mörgum af stærstu viðskiptaverkefnum á Íslandi síðan 2011. Hún vann áður hjá Mallesons Stephen Jaques í Sydney í Ástralíu og Ever­sheeds í Leeds á Englandi.

Aðrir helstu hluthafar BBA/Fjeldco eru meðal annars Baldvin Björn Haraldsson, Halldór Karl Halldórsson, sem er jafnframt framkvæmdastjóri stofunnar, og Einar Baldvin Árnason. Samanlögð velta BBA og Fjeldco var um 860 milljónir í fyrra.