Bankasýsla ríkisins hefur ráðið þrjá leiðandi umsjónaraðila og söluráðgjafa vegna alþjóðlegs frumútboðs á eignarhlutum ríkisins í Íslandsbanka. Um er að ræða Citigroup Global Markets Europe AG („Citi"), J.P. Morgan AG („JP Morgan") og fyrirtækjaráðgjöf Íslandsbanka. Þetta kemur fram í tilkynningu.

Citi og JP Morgan eru leiðandi söluráðgjafar á sviði útboða á hlutabréfum í Evrópu og á heimsvísu ásamt reynslu af íslenskum fjármálamarkaði. Fyrirtækjaráðgjöf og verðbréfamiðlun Íslandsbanka eru leiðandi á innanlandsmarkaði, segir í tilkynningunni.

Framangreindir aðilar voru valdir úr hópi 24 aðila sem skiluðu inn áhugayfirlýsingum til að verða söluráðgjafar. Gert er ráð fyrir frekari ráðningum úr framangreindum hópi í verkefnateymið á næstunni.

Ráðgjafarnir hafa þegar hafið störf.

Ríkið ætlar að selja um 25 til 35 prósenta hlut í Íslandsbanka í söluferlinu og skrá bankann í Kauphöll. Að því loknu er stefnt að því á tveimur til þremur árum liðnum verði ríkið búð að selja allt hlutafé sitt í bankanum.