Verðmöt erlendra banka á Marel, sem gerð voru í kjölfar skráningar fyrirtækisins í Euronext-kaup­höll­inni í Amster­dam, eru allt að 18 prósentum hærri en gengi bréfanna í dag.

Gengi hlutabréfa Marels stendur í 599 krónum í íslensku kauphöllinni og hefur aldrei verið hærra. Hækkun dagsins nemur 3,32 prósentum. Í hollensku kauphöllinni er gengið 4,2 evrur og hefur það hækkað um 13,5 prósent frá því að félagið var skráð í byrjun sumars.

Samkvæmt upplýsingum Markaðarins hefur hollenski bankinn ABN AMRO metið bréfin á 600 krónur. Verðmatið er því jafnt gengi bréfanna í dag. ING Group, sem einnig er með höfuðstöðvar í Hollandi metur bréfin á 650 krónur, eða um 8,5 prósentum yfir markaðsgengi og bandaríski fjárfestingabankinn JP Morgan Chase metur bréfin á 666 krónur. Hæsta verðmatið fékk hins vegar bandaríska fjármálastofnunin Citigroup en hún metur bréfin á fimm evrur, jafnvirði 705 króna, sem er um 18 prósentum yfir markaðsgengi.

Markaðurinn greindi frá því að íslenskir fjárfestar hefðu aðeins fengið úthlutað í kringum fimm prósent af þeim 47 milljarða króna hlut sem seldur var í nýafstöðnu hlutafjárútboði Marels.

Leiðrétting: Upphaflega kom fram að verðmat Citigroup næmi 715 krónum en hið rétta er að það nemur 705 krónum.