Centerhotels högnuðust um 112 milljónir króna árið 2019. Til samanburðar nam hagnaðurinn 314 milljónum króna árið áður. Arðsemi eiginfjár var 14 prósent. Eigið fé var 843 milljónir króna við árslok og eiginfjárhlutfallið 46 prósent. Tekjurnar jukust um þrjú prósent á milli ára og voru 4,6 milljarðar króna.

Hótelsamsteypan er í eigu S&K eignarhaldsfélags sem var með fjóra milljarða í eigið fé við lok árs í fyrra og eiginfjárhlutfallið 91 prósent.

Ferðaþjónusta glímir við mikinn vanda því fáir ferðamenn koma til landsins vegna COVID-19. „Félagið vinnur nú að samningum við kröfuhafa sína hvað varðar húsaleigu og annan fastan kostnað á árinu 2020,“ segir í ársreikningi.

Húsaleiga hækkaði um 44 prósent á milli ára og nam 1,6 milljörðum króna í fyrra. Centerhotels greiddi tengdum aðilum 1,4 milljarða króna í leigu árið 2019. Árið áður var sú fjárhæð 971 milljón króna.

Centerhotels er í eigu hjónanna Kristófers Oliverssonar og Svanfríðar Jónsdóttur.