Icelandic Water Holdings, eigandi vörumerkisins Icelandic Glacial, og Coca-Cola European Partners á Íslandi (Coca-Cola á Íslandi) skrifuðu í gær undir áframhaldandi samstarfssamning um dreifingu vara Icelandic Glacial hér á landi og nær samningurinn nú einnig yfir nýjar vörur Icelandic Glacial sem verður dreift samhliða vörutegundum Coca-Cola á Íslandi. Þetta kemur fram í tilkynningu.

„Icelandic Glacial er í miklum vexti á alþjóðavettvangi en heimamarkaðurinn er okkur ekki síður mikilvægur og erum við ánægð með áframhaldandi samstarf okkar við Coca-Cola á Íslandi. Það eru spennandi tímar framundan en von er á nýjum vörum frá okkur á næstu mánuðum sem við hlökkum til að kynna,“ sagði Jón Ólafsson, stofnandi og stjórnarformaður Icelandic Glacial.

Vöruframboð Icelandic Glacial er fjölbreytt og fæst lindarvatnið úr Ölfusi í plastflöskum, í gleri með og án kolsýru, og kolsýrt í plastflöskum með og án bragðefna. Nýjar vörur verða kynntar til leiks á næstunni þegar framleiðsla hefst á kolsýrðu vatni með og án bragðefna í dósum, kolsýrðu vatni með ferskum bragðtegundum í gleri og fimm og 20 lítra vatnsbelgjum í kassa sem henta vel í ísskápa eða á skrifstofur, segir í tilkynningunni.

„Við hjá Coca-Cola á Íslandi leggjum áherslu á að bjóða viðskiptavinum okkar og neytendum fjölbreytt úrval hágæða vatnsdrykkja fyrir mismunandi markhópa. Vörumerkið Icelandic Glacial hefur hlotið fjölda viðurkenninga fyrir gæði, hreinleika og útlit umbúða og er framleitt í verksmiðju sem er vottuð kolefnishlutlaus. Það fellur vel að sjálfbærnistefnu okkar og markmiðum í loftslagsmálum og fellur einnig vel að þörfum viðskiptavina okkar,“ segir Einar Snorri Magnússon forstjóri Coca-Cola European Partners á Íslandi.