„Við teljum að nýr bankastjóri Arion banka hafi lokið tiltekt í rekstrinum,“ segir norræni fjárfestingabankinn Carnegie. Norræni bankinn lækkaði afkomuspá sína fyrir íslenska bankann um 32 prósent og lækkaði markgengið (e. target price) úr 6,8 í 6,5 krónur eða um fjögur prósent í kjölfar afkomuviðvörunar á þriðja ársfjórðungi, sem kom þremur vikum eftir að hundrað starfsmönnum var sagt upp hjá bankanum.

„Við teljum að Arion banki sé að taka nauðsynleg skref til að auka arðsemi eiginfjár,“ segir í verðmatinu sem birt var í gær og Markaðurinn hefur undir höndum.

Arion banki breytti skipuriti sínu í september meðal annars til að efla hlutverk bankans sem milliliðar á milli þeirra sem þurfa fjármagn og fjármagnseiganda.

Drægi úr vexti efnahagsreikningsins

Greinendur Carnegie telja að sú stefnubreyting geti dregið úr vexti efnahagsreikningsins Arion banka en að sama skapi gæti bankinn í vissum tilvikum viðhaldið tekjum og bætt arðsemina - til viðbótar við fyrrnefndan niðurskurð á kostnaði. Þeir telja að kostnaðarhlutfall bankans ætti brátt að nálgast 50 prósent eins og stefnt er að.

Carnegie ráðleggur fjárfestum að halda bréfum í Arion banka og verðmetur gengi bankans á 5,7 sænskar krónur á hlut, jafnvirði 73 króna á hlut.

Óvissa í efnahagslífinu

Norræni bankinn ráðleggur fjárfestum að halda bréfunum vegna óvissu um þróun efnahagsmála, óvissu um hvernig gangi að innleiða stóra stefnubreytingu í bankanum og krefjandi markaðsaðstæðna, þar sem minna er um viðskipti og mögulega muni framlegðarhlutfall lækka.

Bent er á í verðmatinu að afkomuviðvörunina megi rekja til aflagðrar starfsemi og eigna sem stefnt sé að selja en ekki kjarnastarfsemi. Greinendur norræna bankans hafa ekki áhyggjur af stöðu mála þegar horft er til eiginfjárstöðu Arion banka. CET1 eiginfjárhlutfallið sé afar hátt eða 20 prósent en markmiðið er hærra en 17 prósent.