Ráðgjafafyrirtækið Capacent hefur óskað eftir gjaldþrotaskiptum. Í tilkynningu segir Halldór Þorkelsson, framkvæmdastjóri fyrirtækisins, að tekjur hafi fallið verulega með tilkomu heimsfaraldurs kórónaveiru og stjórnendur neyðst til að binda enda á starfsemi Capacent á Íslandi.

Félagið var hluti af keðju norrænna fyrirtækja sem sérhæfa sig í ráðgjöf og ráðningum.

„Eftir þrotlausa vinnu síðustu vikur við að bjarga félaginu þar sem starfsmenn lögðust á eitt er staðan því miður sú að rekstrargrundvöllur félagsins er erfiður og erfitt að segja til um hversu hratt verulegur bati verður þar á. Stjórn félagsins hefur af þessum sökum í dag óskað eftir gjaldþrotaskiptum frekar en að freista þess að halda áfram rekstri með óhjákvæmlegri skuldasöfnun.“

Nokkuð hefur verið fjallað um fjárhagsleg vandræði félagsins að undanförnu. Til að mynda greindi Fréttablaðið frá því fyrir tæpri viku að ekki lægi fyrir hvort stjórnendum yrði unnt að greiða laun um mánaðamótin.

Rúmlega 50 manns starfa hjá fyrirtækinu og hefur stór hluti þeirra verið á hlutabótum undanfarnar vikur.