Þó að vörusvik í reikningsviðskiptum tengd kennitöluskiptum séu ekki algeng hér á landi eru þó dæmi um að slíkt hafi komið upp. „Við heyrum stundum af þessu og þá kannski sér í lagi þegar einhver hefur lent í þessu og leitar leiða til að byrgja brunninn,“ segir Gunnar Gunnarsson forstöðumaður greiningar hjá Creditinfo. Hann segir nokkur rauð flögg sem hægt sé að hafa auga með og geta minnkað líkur á að fyrirtæki láti blekkjast.

„Það sem gerist er að óprúttnir aðilar nýta sér kennitölur fyrirtækja sem eru með gamlan rekstur eða liggja jafnvel í dvala, en í sumum tilfellum kunna þessar kennitölur að vera með gott lánshæfismat. Þeir reyna svo að sækja sér vörur fyrir háar fjárhæðir án þess að greiða fyrir þær,“ segir Gunnar.

Fyrir kemur að mikið er lagt í svikin, en Fréttablaðið hafði nýverið eftir Guðnýju Hjaltadóttur, lögfræðingi Félags atvinnurekenda, að dæmi væru um að heimasíður hefðu verið búnar til og síður á samfélagsmiðlum til að láta líta út fyrir að virk starfsemi væri innan fyrirtækja þegar í raun var um að ræða svikastarfsemi.

„Hægt er að draga úr líkum á að láta blekkjast með því að horfa til fleiri þátta en lánshæfismatsins þegar tekin er ákvörðun um að heimila reikningsviðskipti og ástæða til að hvetja fyrirtæki til að kanna vel félög áður en stofnað er til þeirra,“ segir Gunnar. Til þess megi til dæmis nýta upplýsingar frá Creditinfo.

Hann bendir á að lánshæfismat fyrirtækja geti verið þokkalegt þó að rekstur þeirra sé lítill eða liggi jafnvel í dvala. Þá sé skynsamlegt að kanna að auki hver reksturinn hjá fyrirtækinu hefur verið sögulega með því að kanna ársreikninga þess. „Skönnuð frumrit af ársreikningum er hægt að sækja gjaldfrjálst á þjónustuvef Creditinfo. Einnig er hægt að sækja sérsniðna skýrslu sem tekur saman allar tölur úr ársreikningum fyrirtækja sex ár aftur í tímann. Með því að sækja ársreikninga sex ár aftur í tímann sést á augabragði hvort um litla eða enga starfsemi er að ræða í fyrirtæki.“

Eins segir Gunnar góða reglu að kanna hvort sá sem stofni til reikningsviðskipta sé prókúruhafi hjá viðkomandi fyrirtæki. „Hægt er að nálgast gildandi skráningu fyrirtækis gagnvart Fyrirtækjaskrá til þess að sjá hverjir eru framkvæmdastjórar, stjórnarmenn og prókúruhafar félags. Ef nýlegar breytingar hafa orðið á stjórnendum eða prókúruhöfum fyrirtækis eftir langan dvala í rekstri þess gæti það reynst merki um svikastarfsemi og vissara að fara varlega,“ segir hann.