BYKO hefur dró úr eigin losun gróður­húsa­loft­tegunda um 15 prósent á árinu 2020 miðað við árið á undan en alls 19 prósent frá því mælingar hófust fyrir tveimur árum. Greint er frá þessu í til­kynningu frá BYKO en þetta kemur fram í sjálf­bærni­skýrslu BYKO fyrir rekstrar­árið 2020.

Sam­kvæmt til­kynningu nam eigin losun gróður­húsa­loft­tegunda á árinu 2020 340 tonnum af CO2 og kol­efnis­binding fyrir­tækisins í skóg­lendi BYKO á Dr­umbodd­stöðum II nemur um 1.200 tonn CO2 á ári.

Sé kol­efnislosun fyrir­tækisins út frá eigin rekstri sett í sam­hengi við stöðu­gilda­fjölda þá er losun per stöðu­gildi 1,0 tonn 2020 en var 1,14 tonn 2019 eða um 14 prósent minnkun.

„Við horfum þannig til hlutanna að leiðandi fyrir­tæki sem BYKO er beri meiri á­byrgð. Við á­kvarðana­töku þurfa slík fyrir­tæki að hafa hæfi­leikann að horfa á stóru myndina í stað þröngs sjónar­horns. Klukkan tifar, við höfum ein­fald­lega ekki tíma til að bíða eftir því að hinn al­menni borgari taki upp breytingar á eigin spýtur. Þar liggur van­mat hvað al­menningur er til­búinn til að sætta sig við þegar kemur að­gerðum leiðandi fyrir­tækja og stjórn­valda,“ segir Sigurður B. Páls­son, for­stjóri BYKO, í til­kynningu.

Krafa um meiri árangur til staðar

Hann segir að það sé var­huga­vert mark­mið að stefna á kol­efnis­hlut­leysi og að krafa um meiri árangur sé til staðar.

„Öll stöndum við í skuld við for­tíðina. Að detta á markaðs­vagninn er fyrir mörgum fyrir­tækjum freistandi til­hugsun. Fyrir­tæki eiga að setja á­herslu á sjálf­bærni og gera betur dag frá degi. BYKO leggur á­herslu á sjálf­bærni og um­hverfis­mál í starf­seminni og er á­nægju­legt að sjá hvað mark­vissar að­gerðir eru að skila sér í minni losun kol­tví­sýrings, þar má nefna orku­skiptin, sorp­flokkun, fækkun flug­ferða starfs­manna o.s.frv.“ segir Sigurður enn­fremur í til­kynningunni.

Á árinu 2020 fór BYKO í sam­starf við Skóg­ræktina til að kort­leggja og meta bindinguna sem hefur átt sér stað í gegnum árin með viður­kenndum og vísinda­legum hætti. Út frá þeirri vinnu var hægt að á­ætla heildar­bindingu CO2 á árinu 2020 í sam­tals 1.200 tonn.